„Þetta er gleðidagur“

„Þetta er gleðidagur“

„Þetta er gleðidagur“

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur að ný reglugerð um skólastarf á tímum Covid-19 muni hafa mjög jákvæð áhrif á skólastarf. Reglugerðin tekur gildi á morgun og heimilar fleirum að koma saman í skólum en áður. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra er ánægð með nýja reglugerð um skólahald.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra er ánægð með nýja reglugerð um skólahald. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er gleðidagur en það er mjög brýnt að við höldum mjög vel utan um þetta og að við náum að klára vormisserið með þessum hætti,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Al­mennt verður heim­ilaður há­marks­fjöldi nem­enda 150 í hverju rými og blönd­un milli sótt­varna­hólfa heim­il á öll­um skóla­stig­um sam­kvæmt til­kynn­ingu vegna skóla­starfs. Regla um nánd­ar­mörk verður einn metri í stað tveggja og gild­ir það jafnt milli nem­enda og starfs­fólks. Aðeins þarf að bera grím­ur ef ekki er unnt að virða eins metra regl­una. Á öll­um skóla­stig­um öðrum en á há­skóla­stigi verður for­eldr­um, aðstand­end­um og öðrum ut­anaðkom­andi heim­ilt að koma inn í skóla­bygg­ing­ar, að upp­fyllt­um regl­um um sótt­varn­ir.

Vinna að úttekt á efnahagsaðgerðum

Með tilslökunum á aðgerðum innanlands fær menningarlífið einnig meira andrými en áður. Þannig verður heimilt að allt að 200 manns komi sam­an á ákveðnum stöðum, meðal ann­ars á söfn­um og í sviðslist­um. 

Listamenn eru á meðal þeirra sem hafa orðið illa úti í faraldrinum enda hefur menningarlífið verið takmarkað vegna sóttvarnareglna. Spurð hvort ætlunin sé að ráðast í frekari efnahagsaðgerðir til þess að styðja við listamenn á þessum erfiðu tímum segir Lilja að menntamálaráðuneytið vinni nú að útekt á þeim efnahagslegu aðgerðum sem þegar hefur verið ráðist í. 

„Við erum alltaf að skoða hvernig við getum stutt betur við en við höfum auðvitað ráðist í umfangsmiklar aðgerðir eins og sjá má. Það er þannig að við ætlum að ná utan um stöðuna og höfum verið að gera það. Við eigum í mjög góðu samstarfi og samtali við menningargeirann,“ segir Lilja. 

Aðgerðir fyrir atvinnulausa stúdenta „á teikniborðinu“

Atvinnuleysi hefur vaxið mikið síðan faraldurinn hófst. Stúdentar eru á meðal þeirra sem hafa misst sína atvinnu. Þrátt fyrir að launagreiðendur greiði gjald af launum stúdenta í atvinnuleysistryggingasjóð geta stúdentar almennt ekki fengið atvinnuleysisbætur. Stúdentahreyfingar, m.a. Stúdentaráð og Landssamband íslenskra stúdenta, hafa kallað eftir breytingum á þessu. Lilja segir að aðgerðir í málum atvinnulausra stúdenta séu „á teikniborðinu.“

En hvað með atvinnuleysisbætur fyrir stúdenta?

„Við erum að skoða þetta, fara yfir það. Það er okkar markmið að við komumst í gegnum þetta og myndum svokallaða efnahagsloftbrú í gegnum Covid-tímabilið. Við höfum átt í samstarfi við stúdenta og fleiri aðila um það hvernig við getum farið í gegnum þetta. Við erum að skoða atvinnu. Við gerðum miklar breytingar á menntasjóðnum og við munum halda áfram að vinna að því.“

mbl.is