Einungis fríar veigar fljóta eftir miðnætti

Kórónuveiran Covid-19 | 23. september 2021

Einungis fríar veigar fljóta eftir miðnætti

Kosningavökur og lokahóf eru víða á dagskrá um helgina en slík mannamót mega standa fram eftir nóttu ef þau eru haldin í veislusölum. Slíkum teitum verður þó að ljúka á slaginu eitt ef þau eru haldin á skemmti- eða veitingastöðum. Í veislusölum má selja vín til miðnættis, séu salirnir með vínveitingaleyfi, en eftir þann tíma mega einungis fríar veigar fljóta.

Einungis fríar veigar fljóta eftir miðnætti

Kórónuveiran Covid-19 | 23. september 2021

Eftir miðnætti má ekki nýta vínveitingaleyfi í veislusölum en þar …
Eftir miðnætti má ekki nýta vínveitingaleyfi í veislusölum en þar má samt halda partíinu gangandi fram eftir öllu. mbl.is/​Hari

Kosningavökur og lokahóf eru víða á dagskrá um helgina en slík mannamót mega standa fram eftir nóttu ef þau eru haldin í veislusölum. Slíkum teitum verður þó að ljúka á slaginu eitt ef þau eru haldin á skemmti- eða veitingastöðum. Í veislusölum má selja vín til miðnættis, séu salirnir með vínveitingaleyfi, en eftir þann tíma mega einungis fríar veigar fljóta.

Kosningavökur og lokahóf eru víða á dagskrá um helgina en slík mannamót mega standa fram eftir nóttu ef þau eru haldin í veislusölum. Slíkum teitum verður þó að ljúka á slaginu eitt ef þau eru haldin á skemmti- eða veitingastöðum. Í veislusölum má selja vín til miðnættis, séu salirnir með vínveitingaleyfi, en eftir þann tíma mega einungis fríar veigar fljóta.

Bæði í veislusölum og á skemmti- og veitingastöðum er óheimilt að hleypa nýju fólki inn eftir miðnætti. Því verða kosningavökuflakkarar sviknir þetta árið þar sem ríkisvaldið leggur blátt bann við slíku flakki eftir að klukkan slær tólf. Þá þarf fólk að halda sig í einu partýi, sem það þarf að vera skráð í, langi það að halda gleðinni gangandi fram eftir nóttu. Það virðist því aðeins vera eitt í stöðunni, að halda tryggð við einn flokk og engan annan á kosninganótt.

Svolítið snúið, segir Víðir

Í samtali við mbl.is segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að útfærslan sé svolítið snúin en ákvörðun um að heimila veislur í sölum og heimahúsum eftir klukkan eitt hafi verið tekin vegna þess hve margir sóttu um undanþágur fyrir brúðkaup og afmælisveislur.

„Þessu var bætt inn til þess að liðka fyrir því að fólk geti verið með brúðkaup og afmæli fram yfir miðnætti,“ segir Víðir og á þá við eftirfarandi ákvæði reglugerðar um samkomutakmarkanir:

„Þrátt fyrir 1. mgr. er þó heimilt að halda einkasamkvæmi eftir klukkan 00.00 á stöðum sem hafa vínveitingaleyfi enda sé vínveitingaleyfið ekki nýtt og ekki komi nýir gestir í samkvæmið. Skrá skal alla gesti með nafni, kennitölu og síma­númeri. Skráin skal varðveitt í tvær vikur og eytt að þeim tíma liðnum. Í slíkum samkvæmum má heildarfjöldi gesta ekki fara yfir 500 manns.“

Geturðu sagt mér hvað þetta þýðir á mannamáli?

„Það er hægt að halda einkasamkvæmi í veislusal með vínveitingaleyfi ef áfengi er ekki selt eftir miðnætti. Þú getur verið með brúðkaup, afmæli eða aðra slíka samkomu, þar sem þú gefur áfengi, en þú mátt ekki nýta vínveitingaleyfið til þess að selja áfengi í slíkum samkomum. Þú mátt selja áfengi fram að miðnætti en ekki eftir það.“

Djamminu þarf að ljúka klukkan eitt stundvíslega, ætli fólk að …
Djamminu þarf að ljúka klukkan eitt stundvíslega, ætli fólk að stunda slíkt á skemmtistöðum, veitingastöðum, krám eða börum. mbl.is/Ari

Öskubuskuumbreyting í boði fyrir suma en ekki alla

Þannig geta teiti í veislusölum umbreyst á miðnætti, eins og Öskubuska sjálf, úr stöðum þar sem áfengi er selt í staði þar sem vínandinn er gefinn en veitinga- og skemmtistöðum er ekki heimilt að undirgangast slíka öskubuskuumbreytingu.

„Það er ekki hægt að breyta bara einhverjum veitingastað í einkasamkvæmi á miðnætti.“

Nokkur skilyrði eru fyrir næturveislum, eins og vikið er að í ákvæðinu hér að ofan. Þar eru vitanlega 500 manna samkomutakmörk eins og annars staðar, gestir þurfa að skrá nöfn sín, símanúmer og kennitölur þegar/áður en þeir mæta og þurfa þeir sem ætla að vera í veislunni að vera mættir fyrir miðnætti.

„Ef þú ferð út eftir miðnætti þá má ekki hleypa þér inn aftur,“ segir Víðir.

Þannig að það er ekkert hægt að flakka á milli kosningavaka t.d.?

„Flakk á milli í kosningavökum er ekki í boði í þessu ástandi, samkvæmt þessari reglugerð.“

Einn smitaður flakkari gæti sent marga í sóttkví

Markmiðið með þessu öllu saman er það sama og almannavarnateymið hefur alltaf að leiðarljósi: að koma í veg fyrir útbreiðslu smita kórónuveirunnar.

„Það gæti orðið ansi mikil hætta á að margir þyrftu að fara í sóttkví ef einstaklingur sem er smitaður fer í mörg partý, hittir þar margt fólk, faðmar og allt það. Maður sér fyrir sér að það væri erfitt að greina á milli hver þyrfti að fara í sóttkví og hver ekki og þar af leiðandi margir sem þyrftu að fara í sóttkví ef slíkt kæmi upp.“

Verður eitthvað sérstakt eftirlit með stærstu kosningapartýunum?

„Ekkert meira en gengur og gerist í eftirliti lögreglunnar um helgar þar sem þetta er alltaf aðeins á dagskránni. Eins og er um helgar þá kanna menn málið þegar eitthvað er í gangi eftir að það á að vera búið að loka. Við höfum mætt í heimsókn í brúðkaup og afmæli og allt hefur verið í lagi og samkvæmt reglum, þannig að það verður örugglega svipað um helgina.“

„Ég vona að fólk njóti helgarinnar og þess að hitta …
„Ég vona að fólk njóti helgarinnar og þess að hitta félagana, sama hvort það er á íþróttaviðburðum eða kosningavökum en fari varlega,“ segir Víðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraðpróf fínn kostur

Víðir segir að almannavarnateymið hafi áhyggjur af þeim smitum sem gætu orðið til vegna mannamóta helgarinnar. Hann beinir því til fólks sem stendur fyrir kosningavökum og öðrum viðburðum að fá gesti til þess að taka hraðpróf fyrir komu, sé það möguleiki.

Ertu með einhver skilaboð fyrir fólk inn í helgina?

„Ekki gleyma því að þetta snýst allt um það hvernig við hegðum okkur, ekki hvaða reglur eru í gildi og annað slíkt. Ég vona að fólk njóti helgarinnar og þess að hitta félagana, sama hvort það er á íþróttaviðburðum eða kosningavökum en fari varlega og muni að það veit enginn hver getur veikst illa.“

mbl.is