Verður í Austurríki um jólin

Vetraríþróttir | 26. desember 2022

Verður í Austurríki um jólin

Grétar Theodórsson, ráðgjafi í almannatengslum, ætlar að halda upp jólin í Austurríki á skíðum þar sem honum líður best. Allir aðfangadagsmorgnar myndu byrja á nokkrum ferðum í brekkunum ef hann fengi ráðið.

Verður í Austurríki um jólin

Vetraríþróttir | 26. desember 2022

Grétar ætlar vera á skíðum um jólin.
Grétar ætlar vera á skíðum um jólin. Ljósmynd/Aðsend

Grétar Theodórsson, ráðgjafi í almannatengslum, ætlar að halda upp jólin í Austurríki á skíðum þar sem honum líður best. Allir aðfangadagsmorgnar myndu byrja á nokkrum ferðum í brekkunum ef hann fengi ráðið.

Grétar Theodórsson, ráðgjafi í almannatengslum, ætlar að halda upp jólin í Austurríki á skíðum þar sem honum líður best. Allir aðfangadagsmorgnar myndu byrja á nokkrum ferðum í brekkunum ef hann fengi ráðið.

„Ég byrja að hugsa um jólin fyrstu dagana í nóvember, svona um það leyti sem jólabjórinn dettur inn, en fer að telja niður í byrjun desember. Ástæðan fyrir því að ég byrja að hugsa um jólin snemma í nóvember er náttúrulega sú að maður kemst ekkert upp með annað. Fyrir utan jólabjórinn fara jólalögin að heyrast í útvarpinu og jólaskreytingar byrja að sjást víða. Ég sá jólatré í fullum skrúða í verslunarmiðstöð um miðjan október, sem er auðvitað allt of snemmt. Ég einfaldlega neita að pæla í jólunum í október,“ segir Grétar.

Hvað finnst þér mikilvægt að gera til þess að koma þér í jólaskap?

„Njóta mín með fjölskyldu og vinum. Mér finnst ómissandi að fara með fjölskyldunni að kaupa jólatré, baka laufabrauð og fara á jólatónleika Björgvins þar sem tengdafaðir minn hefur lengi verið hljómsveitarstjóri. Eftir að ég varð snemm-miðaldra er líka ómissandi að fara á julefrokost með góðum vinum og huggulega bæjarferð með konunni minni. Svo eru aldrei fleiri boð hjá tengdafjölskyldunni en í desember – sem betur fer er þetta allt ágætisfólk.“

Hafa einhver jól verið eftirminnilegri en önnur?

„Öll jól síðan við eignuðumst stelpurnar okkar hafa verið eftirminnileg. Eins finnst mér frábært að vera erlendis á skíðum yfir jólin, en ég hef gert það fimm sinnum. Ég myndi halda öll jól á skíðum í Ölpunum ef ég gæti.“

Hefur þú einhvern tímann upplifað hræðileg jól?

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi upplifað hræðileg jól, en ég held hins vegar að ég eigi aldrei eftir að gleyma jólunum þegar nýfædd dóttir okkar var mikið veik í öndunarvél á barnaspítalanum yfir jól og áramót. Það setur lífið í annað samhengi.“

Grétar Theodórsson, ráðgjafi í almanna- tengslum, elskar að fá heimatilbúnar …
Grétar Theodórsson, ráðgjafi í almanna- tengslum, elskar að fá heimatilbúnar gjafir frá dætrum sínum. mbl.is/Hákon Pálsson

Hvaða gjöf er besta gjöf sem þú hefur fengið?

„Bestu gjafirnar eru alltaf heimatilbúnu gjafirnar sem dætur okkar gefa okkur.“

En gefið?

„Er ekki klassískt svar hér að láta öðrum eftir að dæma það?“

Hvernig hafa jólin breyst eftir að þú eignaðist fjölskyldu?

„Jólin í dag snúnast fyrst og fremst um að upplifa þau með börnunum og ég nýt þeirra miklu betur eftir að ég eignaðist börn. Eins höfum við hjónin boðið foreldrum okkar til okkar á aðfangadag undanfarin ár, það er smá breyting frá því þegar maður fór á barinn á Þorláksmessu, pakkaði inn nokkrum pökkum eftir hádegi á aðfangadag og mætti svo í mat heim til mömmu og pabba.“

Hvað er í matinn á jólunum?

„Við höfum haft þann sið að borða bara það sem við erum í stemningu fyrir hverju sinni. Við höfum verið með önd, við höfum verið með hreindýr og við höfum verið með kornhænu. Eina reglan er að það er engin regla.“

Nú hefur þú búið erlendis, hélstu upp á jólin þar og hvernig var sú upplifun?

„Yfirleitt kom ég heim um jólin þegar ég bjó erlendis, en við héldum upp á jól í Kaliforníu þegar ég bjó þar sem unglingur og það var huggulegt að eyða jólunum á ströndinni. Þá upplifði ég aðventuna þegar ég bjó í Ástralíu, Ítalíu, Austurríki og Hollandi og tók það helst með mér þaðan að jólin þurfa ekki að vera uppskrúfuð og allt fullkomið. Þau snúast miklu frekar um að njóta með sínum nánustu.“

Hvernig er staðan heima hjá þér klukkan 18 á aðfangadag?

„Staðan er yfirleitt nokkuð góð og lítið stress – við höfum sameinað nokkra siði úr báðum fjölskyldum og kl. 18 er stillt á Rás 1 og jólamessan ómar. Við borðum svo yfirleitt upp úr 18.30.“

Hvernig verða jólin í ár?

„Ég hlakka mikið til jólanna í ár en við ætlum að vera á skíðum í Ischgl í Austurríki yfir jólin þannig að við verðum bara að njóta okkar í brekkunum.“

Síðustu jól var „airfryer“ vinsælasta jólagjöfin. Hvernig meturðu árið í ár?

„Við erum búin að fara í gegnum sous vide-græjur, Playstation og pizzaofna undanfarin ár. Ég held að við séum svolítið að detta í sömu stemningu og árin 2008 og 2009 þessi jólin, enda óðaverðbólga og háir vextir. Horfum meira inn á við og gefum persónulegar gjafir eða upplifun.“

mbl.is