Þelamörk og Berlín í sömu ferðinni

Ferðumst innanlands | 11. júlí 2023

Þelamörk og Berlín í sömu ferðinni

Kata Vignisdóttir, dansari og danshöfundur, ætlar að vera dugleg að kíkja norður og heimsækja fjölskylduna í sumar en hún er úr Hörgársveit. Allir sem fara norður í sumar þurfa að skella sér í sundlaugina í Þelamörk að sögn Kötu. 

Þelamörk og Berlín í sömu ferðinni

Ferðumst innanlands | 11. júlí 2023

Kata Vignis er úr Hörgársveit.
Kata Vignis er úr Hörgársveit.

Kata Vignisdóttir, dansari og danshöfundur, ætlar að vera dugleg að kíkja norður og heimsækja fjölskylduna í sumar en hún er úr Hörgársveit. Allir sem fara norður í sumar þurfa að skella sér í sundlaugina í Þelamörk að sögn Kötu. 

Kata Vignisdóttir, dansari og danshöfundur, ætlar að vera dugleg að kíkja norður og heimsækja fjölskylduna í sumar en hún er úr Hörgársveit. Allir sem fara norður í sumar þurfa að skella sér í sundlaugina í Þelamörk að sögn Kötu. 

Kata dvaldi mikið fyrir norðan síðastliðinn vetur en hún lék, söng og dansaði í söngleiknum Chicago í uppfærslu Leikfélags Akureyrar. Söngleikurinn var sýndur í Samkomuhúsinu en það er einmitt uppáhaldsmenningarhús Kötu á Akureyri. „Ég hef alltaf verið heilluð af því, ég man eftir að hafa farið að sjá söngleiki þar sem barn með stjörnur í augunum. Ég fékk svo að sýna fyrstu vorsýninguna mína í dansi þar þegar ég var 13 ára sem var algjört sport. Þetta er einstaklega sjarmerandi hús með góðan anda, án efa eitt fallegasta leikhús landsins. Menningarhúsið Hof er líka ofarlega á lista hjá mér, vinnuaðstaðan og plássið þar er svo geggjað,“ segir hún.

Kata segir kraft í menningarlífinu á Akureyri. „Leikfélag Akureyrar er náttúrlega einstakt og það er augljóst að starfsemi þess gerir mikið fyrir Akureyri og nágrenni. Það var gaman að sjá hvað fólk tók vel í sýninguna Chicago og hversu margir fóru og gerðu sér glaðan dag eða jafnvel helgi í tengslum við sýninguna. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir bæ eins og Akureyri sem þjónar jafn stóru svæði og hann gerir að hafa sterkt menningar- og listalíf. Það gerir svo ótrúlega mikið fyrir allt Norðurland. Bæði fyrir íbúana sjálfa og gefur fólki til dæmis frá höfuðborgarsvæðinu enn frekari ástæðu til að koma í helgarferð sem styrkir þá oft veitingastaði og hótel bæjarins í leiðinni. Það eru klárlega mjög margir hæfileikaríkir og drífandi listamenn á Akureyri sem eru algjörir snillingar á sínu sviði og mjög gaman að fylgjast með þeim.“

Kata fór með hlutverk í Chicago á Akureyri í vetur.
Kata fór með hlutverk í Chicago á Akureyri í vetur. Ljósmynd/Auðunn

Af hverju má fólk ekki missa þegar það fer til Akureyrar?

„Án efa því að kíkja í leikhús og svo eru oft mjög flottar sýningar í gangi á Listasafninu í Gilinu. Yfir sumartímann eru líka skemmtilegar hátíðir eins og Ein með öllu, Akureyrarvaka og Listasumar þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Síðan er nýjasta nýtt að kíkja í Skógarböðin, það er mjög slakandi og hægt að eiga notalegar stundir þar. Ég er alltaf að reyna að vera meiri sjósundstýpa svo fyrir þá sem langar að stunda sjósund af meiri krafti, eins og ég, þá er stemning í því að kíkja í pottana á Hauganesi og neyða sig til þess að fara út í sjó.“

Það er hægt að eiga góðar stundir í Skógarböðunum
Það er hægt að eiga góðar stundir í Skógarböðunum Aðsend/Axel Þórhallsson

Hvar færðu besta brönsinn á Akureyri?

„Ég held að ég verði að segja Strikið, það er mjög notalegt að fara þangað í „brunch“ um helgar.“

Hvert ferðu þegar þú vilt gera vel við þig í mat og drykk?

„Þá fer ég á Rub 23 og fæ mér sushi. Ég reyni oftast að panta mér eitthvað nýtt þegar ég fer á veitingastaði en þegar ég fer á Rub er ég mjög vanaföst og fæ mér undantekningalaust ten ten three sushi-rúlluna. Síðan er líka mjög ljúft að kíkja þangað í hádeginu á virkum dögum en þá er hlaðborð og ég er mikill talsmaður hlaðborða.“

Hvar er best að fá sér sundsprett?

„Það er klárlega í Þelamerkurlaug sem er í um 10 til 15 mínútna akstursfjarlægð frá Akureyri. Ég mæli hiklaust með henni fyrir utanbæjarfólk enda er ég úr sveitinni. Stundum þarf ég að ræna fólki og keyra það þangað gegn vilja þess en síðan eru allir þakklátir fyrir það þegar upp er staðið.“

Sundlaugin í Þelamörk.
Sundlaugin í Þelamörk.

Hvernig myndi draumadagurinn á Norðurlandi líta út?

„Draumadagurinn minn þegar ég er á Norðurlandi er að byrja daginn á morgunkaffi með fjölskyldunni í sveitinni, fara í göngutúr í náttúrunni og síðan í sund á Þelamörk. Svo er algjörlega nauðsynlegt að fara og borða á Berlín, það er best geymda perla Akureyrar. Ég er fastagestur þar ásamt góðum vinum þegar ég er fyrir norðan. Síðan er gaman að kíkja á Múlaberg í „happy hour“ og fara svo á sýningu eða tónleika um kvöldið.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í sumar er ég að fara að vinna í nokkrum skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum tengdum dansi, öðrum sviðslistum og verkefnastjórnun sem ég er mjög spennt fyrir. Síðan ætla ég líka að vera dugleg að taka mér frí inn á milli, ferðast með góðum vinum og kíkja norður til fjölskyldunnar.“

mbl.is