Gekk óvart inn í brúðkaup í Mexíkó á bikinítopp og stuttbuxum

Íslendingar í útlöndum | 1. október 2023

Gekk óvart inn í brúðkaup í Mexíkó á bikinítopp og stuttbuxum

Sóldís Alda Óskarsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt og hefur verið á ferðalagi um heiminn síðustu ár enda sannkölluð flökkukind. Hún sagði starfi sínu lausu fyrir rúmlega þremur árum til að svala þörfinni fyrir tilbreytingu og ævintýri en Sóldís hefur heimsótt tæplega 50 lönd í heiminum og er hvergi nærri hætt. 

Gekk óvart inn í brúðkaup í Mexíkó á bikinítopp og stuttbuxum

Íslendingar í útlöndum | 1. október 2023

Sóldís Alda hefur upplifað mikil ævintýri síðastliðin ár.
Sóldís Alda hefur upplifað mikil ævintýri síðastliðin ár. Samsett mynd

Sóldís Alda Óskarsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt og hefur verið á ferðalagi um heiminn síðustu ár enda sannkölluð flökkukind. Hún sagði starfi sínu lausu fyrir rúmlega þremur árum til að svala þörfinni fyrir tilbreytingu og ævintýri en Sóldís hefur heimsótt tæplega 50 lönd í heiminum og er hvergi nærri hætt. 

Sóldís Alda Óskarsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt og hefur verið á ferðalagi um heiminn síðustu ár enda sannkölluð flökkukind. Hún sagði starfi sínu lausu fyrir rúmlega þremur árum til að svala þörfinni fyrir tilbreytingu og ævintýri en Sóldís hefur heimsótt tæplega 50 lönd í heiminum og er hvergi nærri hætt. 

„Þegar ég var í 8. bekk og samfélagsmiðillinn Facebook rétt að byrja sá ég færslu frá stelpu, nokkrum árum eldri en ég, sem var á leið í heimsreisu. Þetta var fyrir þann tíma þegar önnur hver manneskja hélt í heimsreisu eftir menntaskóla enda hafði ég aldrei heyrt neitt um þetta, ég man bara hvað mér þótti þetta spennandi. 

Ég var hins vegar bara fátækur grunnskólanemandi sem var á þessum tíma að þéna sirka 700 krónur á tímann, þannig að ég var ekki að ferðast mikið lengra en í skólann og vinnuna,“ segir Sóldís. 

Sóldís Alda hefur verið dugleg festa ferðalögin á filmu.
Sóldís Alda hefur verið dugleg festa ferðalögin á filmu. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Hvað hefur þú verið lengi á ferðalagi?

„Ég er búin að vera á miklu, nánast stöðugu, ferðalagi síðastliðin þrjú árin. Fyrir þann tíma var ég fastráðin hjá fyrirtæki á Íslandi í þrjú ár en var svo heppin að semja um fjögurra mánaða frí á hverju ári sem ég nýtti til að ferðast, aðallega um Mið- og Suður-Ameríku, og hef ég þar af leiðandi verið á ferðalagi síðustu sex árin.“

Til hvaða landa hefur þú ferðast?

„Ég hef komið til tæplega 50 landa þannig að það yrði mjög löng upptalning, en ég hef ferðast til flestra landa í Evrópu, ferðast mikið um Mið- og Suður-Ameríkur og komið til Mexíkó, Gvatemala, Belís, Níkaragva, Kosta Ríka, Panama, Perú og Kólumbíu. Einnig hef ég heimsótt Marokkó, Katar, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Malasíu, Indónesíu, Singapúr, Bandaríkin, Nýja-Sjáland og Ástralíu.“

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt? 

„Fyrsta ferðin mín til Kosta Ríka var ótrúleg upplifun. Það var í fyrsta skiptið sem ég ferðaðist út fyrir Evrópu þannig að þetta var allt svo nýtt fyrir mér. Í dag er Kosta Ríka land sem mér finnst ofboðslega þægilegt að heimsækja, ég hef komið þangað oft og veit hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. 

Á brú í Kosta Ríka.
Á brú í Kosta Ríka. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Þegar ég kom þangað fyrst var allt svo framandi og frumstætt. Það eru til að mynda engin heimilisföng í Kosta Ríka og heldur engin opinber áætlun fyrir strætó, þeir koma bara þegar þeir koma.

Til að byrja með missti ég nánast svefn yfir að pæla í því hvernig póstur gæti komist til skila og hvernig fólk yfir höfuð fyndi nokkurn skapaðan hlut með engin heimilisföng, en einhvern veginn þá gekk allt upp. Við fengum póst og þrátt fyrir að það væru engar áætlanir fyrir strætó þá voru þeir ábyggilega áreiðanlegri en strætóarnir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég ferðaðist út á vegum AUS (Alþjóðleg Ungmennaskipti) og bjó hjá „host“ fjölskyldu í San José, höfuðborg Kosta Ríka, og fékk að upplifa landið eins og heimamaður sem var mjög áhugaverð reynsla.“

Í Valensía.
Í Valensía. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Það er Valensía á Spáni, en í langan tíma var það Barselóna. Valensía var bara ein af þessum borgum sem ég vissi af en hafði aldrei nein sérstök áform um að heimsækja þar til ég endaði á að flytja þangað mjög óvænt í miðjum kórónuveirufaraldri. 

Á þessum tíma var ég búin að segja starfi mínu lausu og ætlaði að halda til Asíu en hún var svo gott sem lokuð út af kórónuveirunni. Ég ákvað þá að halda til Spánar og til að gera ferðalagið ögn meira spennandi ákvað ég að fara ekki til Barselóna í hundraðasta skiptið, heldur að fara til Valensía. Það er alveg smá klisja að segja þetta en ég kolféll fyrir Valensía, hún hefur í rauninni allt sem maður er vanur í stórborgum, en er bara minni og mun þægilegri til að búa í.

Sóldís Alda við Óperuhúsið í Sydney.
Sóldís Alda við Óperuhúsið í Sydney. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Borgin býr yfir fallegum hverfum, mikið af almenningsgörðum, strönd, flottum kaffihúsum og veitingahúsum og svo er töluvert minna af túristum en í Barselóna. Það eru líka hjólastígar út um allt og gott veður nánast alla daga og því auðvelt að komast um án þess að vera á bíl, sem hentar mér mjög vel þar sem mér finnst fáránlega leiðinlegt að keyra.“

Hver er uppáhaldsborgin þín utan Evrópu?

„Sydney finnst mér geggjuð. Hún er ein af þessum borgum sem býr yfir öllu. Sydney er stórborg en hefur að geyma ótal falleg útivistarsvæði og æðislegar strendur. Svo eru hverfi eins og Bondi sem er smá eins og að koma í lítinn strandbæ, er það er samt bara hverfi í borginni.

Sóldís Alda féll fyrir Mexíkóborg.
Sóldís Alda féll fyrir Mexíkóborg. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Ég verð líka að nefna Mexíkóborg. Hún var aldrei ofarlega á listanum, en vinkona mín var mjög æst í að fara og hálf dró mig með sér. Þessi vinkona mín er ljósmyndari þannig að ég hugsaði með mér að ef ég myndi ekki fíla borgina þá fengi ég að minnsta kosti góðar myndir. Borgin kom ótrúlega mikið á óvart, þvílík menningarborg. Þetta er staður þar sem maður getur drukkið í sig menningu Rómönsku-Ameríku. Mexíkóborg er samsett úr mörgum hverfum, sem eru eins og litlir bæir þar sem þau eru öll svo ólík. Við vinkonurnar hefðum þurft meira en þessa fjóra daga til þess að upplifa borgina.“

Gvatemala.
Gvatemala. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Draumaáfangastaðurinn?

„Ég er búin með flesta staðina sem voru á þeim lista, en í augnablikinu er ég mjög heit fyrir Argentínu og svo væri gaman að upplifa safarí í Afríku.“

Þegar þú ert á ferðalagi erlendis hvers saknarðu helst við heimahagana?

„Það tekur mig yfirleitt ekki meira en svona þrjá daga að byrja að sakna þess að fara í heita og kalda pottinn í sundlaugunum heima og infrarauða gufu. Ég elska slíkt. Það er mjög erfitt að finna slíkan lúxus í útlöndum nema í einhverjum rándýrum heilsulindum og ég væri löngu farin á hausinn ef ég væri a splæsa í það oft í viku. En svo er það þetta típíska eins og bragðarefur, hockey pulver og gott íslenskt nammi.“

Besti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Allur matur sem ég hef borðað í Mexíkó hefur verið góður. Sá besti var sennilega á litlum taco-stað sem við römbuðum á þegar við vorum að hjóla í kringum eyju sem heitir Isla Mujeres. Sá heitir Rancho Capricho fyrir áhugasama.“

Á strönd í Holbox.
Á strönd í Holbox. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Versti matur sem þú hefur fengið á ferðalagi?

„Matur sem ég fékk á matarupplifunarkvöldi á hosteli í Kúala Lúmpúr í Malasíu var ekki upp á marga fiska. Þetta var að ég held einhver fiskur. Það var eitthvað slímugt súrt jukk á honum. Ég er lítið fyrir jukk. Það var líka boðið upp á eitthvað djúpsteikt sem ég hélt í fyrstu að væru litlar rækjur og þegar ég ætlaði að smakka þá komst ég að því að þetta voru flugur. Ég smakkaði þær ekki og endaði á „poke bowl“ stað síðar um kvöldið.“

Hefur þú upplifað þig óörugga einhvers staðar?

Nei, ég get ekki sagt það, þó svo ég hafi ferðast mikið um lönd eins og Mexíkó, Gvatemala og Kólumbíu sem fólk álítur oft hættuleg. Það hefur alveg komið fyrir að ég hafi verið að ganga einhvers staðar og fengið yfir mig tilfinningu um að nú væri gott að snúa við og á þeim stundum hef ég snúið við. 

Maður þarf að vera mjög vakandi fyrir umhverfinu á ferðalagi og oft eru viss hverfi eða götur í löndum og borgum þar sem maður á alls ekki að vera, það er eitthvað sem maður þarf að kynna sér. Mín reynsla er þó sú að ef maður er þokkalega vakandi og ekki að veifa verðmætum þá er þessi heimshluti ekkert hættulegri en hver annar.“

Sóldís Alda á strönd í Mexíkó.
Sóldís Alda á strönd í Mexíkó. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Hefur þú lent í einhverju vandræðalegu á ferðalagi?

„Já, alveg alls konar!

Izamel í Mexíkó.
Izamel í Mexíkó. Ljósmynd/Sóldís Alda Óskarsdóttir

Þegar ég var á eyju í Mexíkó gekk ég ásamt vinkonu minni, alveg óvart, inn í brúðkaup á bikinítopp og stuttbuxum einum fata og með strandhandklæði í hendi. Þetta atvikaðist þannig að við vinkonurnar vorum staddar á eyju sem heitir Holbox. Þar kynntumst við tveimur ungum mönnum og plönuðum að hitta þá í kvöldverð. Fyrr um daginn fórum við vinkonurnar í bátsferð en ætluðum með góðum tíma að fara upp á hótel og gera okkur klárar fyrir hittinginn.

Nema hvað, bátsferðinni seinkaði og við enduðum á að koma í land sirka hálftíma fyrir stefnumótið. Þar sem hótelið okkar var staðsett á hinum enda eyjunnar þá ákváðum við að fara beint frá bátnum og á veitingastaðinn, enda báðar með batteríislausa síma, en það þýddi líka að við gátum ekki haft fataskipti.

Við æddum inn á veitingastaðinn og ég heyrði vinkonu mína segja „omg, I think this is a f***ing wedding“. Við stóðum þarna í kannski tíu sekúndur en augnablikið leið eins og heil eilífð. Strákarnir voru þá komnir og farnir, en þeir höfðu komist að því að veitingastaðurinn væri lokaður um kvöldið vegna einkasamkvæmis og hringt í okkur til að láta vita, en við með batteríislausa síma. Eftir þetta keypti ég mér hleðslukubb.“

Hefur þú upplifað menningarsjokk?

„Já, tvívegis. Þegar ég ferðaðist til Kosta Ríka í fyrsta sinn. Ég man að mér þótti allt rosalega frumstætt og það er mjög sýnileg stéttaskipting í landinu, en rándýrar afgirtar villur eru staðsettar í fátækustu hverfunum.

Svo var það líka þegar ég heimsótti Balí í fyrsta sinn og upplifði umferðina í Asíu, sem er algjör sturlun. Línurnar á milli akreina eru eiginlega bara til skrauts, fólk keyrir bara þar sem það vill keyra og það virðast ekki gilda neinar umferðarreglur, það fer að minnsta kosti enginn eftir þeim.“

Hvað hefur þú tekið frá öllum þessum ferðalögum (lærð lexía)?

„Kannski helst það að heimurinn er ekki eins hættulegur og manni er sagt. Svo að það er engin ein rétt leið til að lifa lífinu.“

mbl.is