Byltingin hófst í Ferguson

Á morgun er ár síðan að hinn átján ára gamli Michael Brown var skotinn til bana af lögreglumanni í bænum Ferguson í Missouri ríki Bandaríkjanna. Málið vakti heimsathygli, ekki síst vegna sláandi mynda af líki Brown sem birtust á samfélagsmiðlum. Myndirnar sem sýndu lík hans á jörðinni í margar klukkustundir vöktu óhug en einnig myndir sem sýndu ofbeldisfull mótmæli í bænum í kjölfarið.

Áður fyrr hefði morðið á Brown hugsanlega fengið minni athygli en í dag, þar sem flestir eru með myndavélasíma og nota samfélagsmiðla sem ná til milljóna manna, er auðveldara að vekja athygli á ofbeldi og hefur lögreglan í Bandaríkjunum fengið að finna fyrir því síðasta árið.

Að mati Jeffrey McCune, kennara við Washington University í St. Louis voru mótmælin í Ferguson upphafspunkturinn á stórri byltingu.

 „Nú eru allskonar samtök um allt landið sem berjast fyrir réttindum svartra og frelsi þeirra og reyna að minnka það ofbeldi sem svartir menn og konur verða fyrir,“ sagði McCune í samtali við AFP.

Það má hinsvegar ekki gleyma því að það ofbeldi sem braust út í Missouri í kjölfar drápsins á Brown er ekkert nýtt í Bandaríkjunum. Fyrir rúmlega tuttugu árum birtist myndband af fjórum hvítum lögreglumönnum berja Rodney King, sem er svartur. Lögreglumennirnir voru þrátt fyrir myndbandið sýknaðir af ákæru um líkamsárás og uppskar það gríðarlega óánægju í Bandaríkjunum og umræðu um sambönd kynþátta.

Aðgerðarsinninn Waylon McDonald segir í samtali við AFP að betri tækni og aukin notkun samfélagsmiðla geri störf lögreglunnar mun sýnilegri. „Þetta hefur skapað betri sýn í þeim skilningi að þegar lögreglumenn gera eitthvað rangt getum við tekið það upp og sent milljónum manna það strax, hvort sem það er í gegnum Vine, Facebook, Instagram eða Twitter.“

Lögreglumaðurinn Darren Wilson sem skaut Brown var aldrei ákærður. Fyrst var það ákveðið af kviðdómi í nóvember og svo var það staðfest af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í mars. Wilson hefur alltaf haldið því fram að hann hafi skotið Brown í sjálfsvörn þrátt fyrir að Brown hafi haft báðar hendur uppi eins og í uppgjöf þegar hann var skotinn, að sögn vitna.

Gífurlegt ofbeldi braust út í Ferguson í kjölfar drápsins á …
Gífurlegt ofbeldi braust út í Ferguson í kjölfar drápsins á Michael Brown. AFP
Darren Wilson, lögreglumaðurinn sem skaut Michael Brown.
Darren Wilson, lögreglumaðurinn sem skaut Michael Brown. AFP
Michael Brown
Michael Brown Ljós­mynd/Fés­bók­arsíðan Justice For Michael Brown
Mótmæli í Ferguson fyrir tæpu ári síðan.
Mótmæli í Ferguson fyrir tæpu ári síðan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert