Skoða að grípa til refsiaðgerða

Sierra Leone og Líbería bíða þess nú að vera lýst …
Sierra Leone og Líbería bíða þess nú að vera lýst laus við ebólu, en ekki sér fyrir endan á faraldrinum í Gíneu. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tilkynnt að til standi að skoða hvernig beita megi viðskiptaþvingunum til að refsa þeim ríkjum sem fara ekki eftir alþjóðlegum heilbrigðisreglugerðum. Tilefnið eru mistæk viðbrögð vegna ebólufaraldursins.

Stofnunin hefur komið á laggirnar nefnd sem mun rannsaka viðbrögð alþjóðasamfélagsins vegna útbreiðslu ebólu, þar á meðal hvers vegna mörg ríki virtu að vettugi alþjóðaheilbrigðisreglugerðina (IHR) frá 2005.

Formaður nefndarinnar, Didier Houssin, segir að mögulega sé hægt að rekja orsökina til þekkingarleysis og ógagnsæi í heilbrigðiskerfum, sérstaklega í þeim ríkjum Afríku sem verst urðu úti í faraldrinum.

Houssin sagði einnig að til stæði að rannsaka hvort að ströng viðurlög myndu mögulega leiða til aukinnar hlýðni gagnvart reglum þegar næsti faraldur færi af stað. Hann sagði að nefndin hefði óskað eftir ráðleggingum um mögulegar leiðir hvað þetta varðar.

Formaðurinn sagðist ekki sannfærður um að viðeigandi væri að taka upp refsikerfi í heilbrigðismálum, en um krísu væri að ræða og allir væru á einu máli um nauðsyn þess að grípa til aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert