Að minnsta kosti átta látnir

„Þetta hefur verið hræðilegt. Við hlupum út úr húsinu með barnabörnin okkar og nú erum við á hæð og vonum að þetta verði brátt yfirstaðið,“ sagði Maria Angelica Leiva frá Navidad í samtali við Reuters í kjölfar skjálftans í Chile í gær. „Það er myrkur alls staðar og við vonum bara að sjórinn hafi ekki náð húsinu okkar,“ sagði hún.

AFP hefur eftir innanríkisráðherra landsins, Jorge Burgos, að fjöldi látinna standi í átta en samkvæmt BBC létust þrír af völdum hjartaáfalls og tveir eftir að hafa orðið undir grjóti og byggingarefnum. Þá hafa fregnir borist af því að 19 ára einstaklingur hafi kramist til bana í bænum Monte Patria, en það hefur ekki fengist staðfest.

Skjálftinn var 8,3 stig og er sjötti stærsti skjálfti í sögu Chile. Þá er hann stærsti skjálfti sem mælst hefur í heiminum á þessu ári. Viðvaranir voru víða gefnar út við Kyrrahaf í kjölfar skjálftans af ótta við flóðbylgju, en hafa nú margar verið afturkallaðar.

Í strandbænum Coquimbo skullu 4,5 metra háar öldur á ströndinni.

Samkvæmt BBC eru 1.800 án drykkjarvatns í Illapel og hundruð þúsunda eru án rafmagns í ríkinu Coquimbo, sem varð hvað verst úti.

„Þetta byrjaði sem smá hreyfing, sem varð síðan sterkari og sterkari,“ segir Jeannette Matte, sem býr í Santiago. „Við vorum á tólftu hæð og vorum afar óttasleginn af því að þetta stoppaði ekki. Fyrst var hreyfingin til hliðar og síðan eins og lítil hopp.“

Svo öflugur var skjálftinn að byggingar svignuðu í Buenos Aires í Argentínu.

Konur standa úti á baðsloppum og fylgjast með símanum.
Konur standa úti á baðsloppum og fylgjast með símanum. AFP/ALEJANDRO RUSTON
Fólk flúði út á götu þegar skjálftinn reið yfir.
Fólk flúði út á götu þegar skjálftinn reið yfir. AFP/RAUL ZAMORA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert