Herða eftirlit með flugvallastarfsmönnum

Aðgangur sjötíu flugvallastarfsmanna í París að ákveðnum svæðum hefur verið minnkaður töluvert síðustu vikur vegna gruns um að öfgamenn leynist innan um starfsfólkið. Síðan að árásirnar í París voru gerðar fyrir rúmum mánuði hefur verið leitað í 4000 skápum starfsmanna á Charles de Gaulle og Orly flugvöllunum. Að sögn lögreglu var það ætlun íslamskra öfgamanna sem féllu í aðgerðum lögreglu fimm dögum eftir árásirnar 13. nóvember að ráðast næst á Charles de Gaulle, sem er stærsti alþjóðaflugvöllur Frakklands.

Möguleikinn á því að öfgamenn starfi á flugvöllum komst í umræðuna eftir að rússnesk farþegaþota hrapaði í Egyptalandi í október. Vestrænir rannsakendur telja að þotan hafi verið sprengd upp eftir að flugvallastarfsmaður kom sprengju fyrir í farangursrými hennar.

Augustin de Romanet, framkvæmdastjóri ADP, fyrirtækisins sem rekur flugvellina í París, sagði að stofnunin sem gefi út öryggispassa flugvallanna hafi hert eftirlit með flugvallastarfsmönnum eftir árásirnar í París í síðasta mánuði þar sem 130 létu lífið og 350 særðust. Að sögn de Romanet varð það til þess að sjötíu flugvallstarfsmenn misstu öryggispassa sína og komast ekki á sömu svæði innan flugvallanna og áður.

Meðal þeirra voru töskuberar og þeir sem þrífa flugvélarnar að innan.

Möguleikinn á því að öfgamenn séu á meðal starfsmanna strætisvagna og lesta í Frakklandi hefur einnig komist í umræðuna. Samy Amimour, einn af þeim sem sprengdi sig í loft upp í Bataclan tónleikahöllinni í París í síðasta mánuði, hafði starfað sem strætisvagnabílstjóri þrátt fyrir að vera á lista yfirvalda vegna tengsla hans við öfgamenn.

Frétt The Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert