Brýtur FBI lög með Clinton-rannsókninni?

James Comey, framkvæmdastjóri FBI. Harry Reid, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild …
James Comey, framkvæmdastjóri FBI. Harry Reid, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings, segir Comey hafa brotið lög sem banna embættismönnum að hafa áhrif á kosningar. AFP

Forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) kann að hafa brotið lög með því að upplýsa að FBI væri að rannsaka tölvupósta sem mögulega tengdust Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins. Þetta segir Harry Reid, leiðtogi demó­krata í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings.

Reid sakaði forstjórann, James Comey, um að brjóta lög sem banna embættismönnum að hafa áhrif á kosningar. Comey tilkynnti um rannsókn FBI á föstudag, innan við tveimur vikum áður en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu.

FBI hefur fengið heimild til að rannsaka tölvupósta í eigu eins helsta aðstoðarmanns Clinton. Talið er að tölvupóstar frá aðstoðarmanninum, Humu Abedin, hafi fundist á fartölvu fyrrverandi eiginmanns hennar, fyrrverandi þingmannsins Anthony Weiner.

Þurfa að fara í gegnum 650.000 tölvupósta

Að sögn fréttavefjar BBC mun FB þurfa að fara í gegnum 650.000 tölvupósta, sem gerir það að verkum að ólíklegt verði að telja að rannsókn verði lokið fyrir kjördag.

FBI telur tölvupóstana geta haft mikilvæg tengsl við fyrri rannsókn stofnunarinnar á notkun Clinton á einkanetfangi sínu í tíð sinni sem utanríkisráðherra. Þeirri rannsókn lauk í júní, án þess að Clinton sætti ákæru.

Þingmaðurinn Weiner er hins vegar viðfangsefni alls óskyldrar rannsóknar sem snýr að sendingum hans á kynferðislegum póstum til stúlku sem er undir lögaldri.

Í bréfi sem Reid sendi Comey, sakar hann framkvæmdastjórann um að gerast sekan um tvöfalt siðgæði með því að hjálpa einum stjórnmálaflokki.

Sakar Comey um að leyna upplýsingum um Trump

Sagði hann Comey kunna að hafa brotið svo nefnd Hatch lög, sem banna embættismönnum að nýta sér aðstöðu sína til að hafa áhrif á kosningar.

„Þú kannt að hafa brotið lög með flokkstengdum gjörðum þínum,“ segir í bréfinu. Þá sakaði Reid Comey einnig um að halda leyndum „eldfimum upplýsingum um náin tengsl Donalds Trumps, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, og  rússneskra stjórnvalda“.

„Almenningur hefur rétt á þessum upplýsingum. Ég skrifaði þér fyrir nokkrum mánuðum og óskaði eftir að þessar upplýsingar yrðu gerðar opinberar,“ sagði Reid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert