Drápu átta börn

Loftárásir sýrlenska stjórnarhersins og Rússa kostuðu 21 almennan borgara í Sýrlandi lífið í gær. Meðal annars voru átta börn drepin í árásunum sem gerðar voru í Idlib-héraði.

Árásirnar eru liður í átökum stjórnvalda við uppreisnarmenn í héraðinu en Idlib er eina héraðið í Sýrlandi sem ekki er undir stjórn Assads forseta. 

Samkvæmt upplýsingum frá Syrian Observatory for Human Rights eru 11 þeirra sem létust úr sömu fjölskyldu sem bjó í bænum Sinjar. Árásirnar hafa haldið áfram í dag en ekki hafa borist upplýsingar um hversu margir almennir borgarar hafa týnt lífi það sem af er degi.

Um helgina létust að minnsta kosti 23 í mikilli sprengingu í borginni Idlib sem er í samnefndu héraði. Sprengjan sprakk í höfuðstöðvum vígahóps sem nefnist  Ajnad al-Qawqaz. Talið er að sjö þeirra sem fórust séu almennir borgarar en aðrir liðsmenn samtakanna sem berjast gegn stjórnvöldum. Margir þeirra koma frá Asíu og hafa komið til Sýrlands að berjast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert