„Ég trúi því ekki að við séum á lífi“

Íbúar Austur-Ghouta, sem hafa verið fluttir á brott af svæðinu, óttast um ættingja sína sem enn eru á átakasvæðinu. Ein þeirra hefur ekki hitt dóttur sína í mánuð en þau reyndu að finna hana án árangurs. „Ég gat ekki tekið hana með mér né kvatt hana,“ segir hún í samtali við fréttamann AFP í skýli sem hefur verið komið upp fyrir fólk sem hefur flúið Austur-Ghouta.

Stjórnarherinn hefur flutt hluta íbúa Austur-Ghouta þangað til að forða þeim undan átökunum. En enn eru fleiri hundruð þúsund íbúar innilokaðir á svæðinu þar sem loftárásir eru gerðar daglega af hálfu stjórnarhersins og Rússa.  

Reyndum að finna hana án árangurs

Rima Sheikh er fertug fimm barna móðir sem er ein þeirra sem voru flutt á brott og dvelur hún ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum í Dweir. Hún óttast afdrif dóttur sinnar sem ekki komst með.

„Við fórum og reyndum að finna hana í kjallaranum þar sem hún bjó í en hún og eiginmaður hennar voru þegar farin,“ segirSheikh. Fjölskylda Sheikh er ein af 17 fjölskyldum, alls 76 einstaklingum, sem hafa komið í skýlið frá bænum Misraba frá því á laugardag er herinn náði yfirráðum yfir bænum. Þar bjuggu um 10 þúsund manns fyrir stríð. Enginn veit hversu margir þeirra eru enn á lífi.

Frá Douma - stærsta bæ Austur-Ghouta.
Frá Douma - stærsta bæ Austur-Ghouta. AFP

Móttökustöðin var tjaldstæði og íþróttamiðstöð áður en átökin brutust út í Sýrlandi fyrir sjö árum.

Hver fjölskylda sem þangað kemur fær herbergi, teppi, eldunarbúnað sem og mat og hreinlætisvörur frá sýrlenska Rauða krossinum. Alls hafa verið sett upp 82 herbergi í íþróttasalnum og síðan er salernisaðstaðan sameiginleg.

Sakna fjölskyldunnar

Ruwayda Abdelraheem, sem er 45 ára, segir að hún hafi ekki náð að hitta dóttur sína eða barnabarn sem fæddist í Douma, stærsta bæ Austur-Ghouta, daginn sem stjórnarherinn hóf stórskotaárás á svæðið 18. febrúar.

„Ég er svo glöð yfir því að vera komin í burtu en ég er líka sorgmædd yfir því að geta ekki hitt dóttur mína sem eignaðist barn,“ segir hún og þurrkar tárin. „Ég hef ekki heyrt neitt í henni.“

Talið er að íbúar Austur-Ghouta séu um 400 þúsund talsins en þeir hafa búið við umsáturástand frá árinu 2013 og frá 18.febrúar hafa loftárásirnar verið nánast stöðugar þar sem talið er að bæði efnavopnum og tunnusprengjum hafi verið varpað á íbúðabyggð.

AFP

1.170 drepnir á þremur vikum

Nýverið var svæðinu skipt upp í þrjá hluta af stjórnarhernum og ekki möguleiki á að komast á milli svæða nema eiga á hættu að vera drepinn. Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökum hafa 1.170 almennir borgarar verið drepnir í Austur-Ghouta á síðustu þremur vikum. 

Í móttökumiðstöðinni hitti fréttamaður AFP Maysa Uyun en móðir hennar og systir eru enn í Austur-Ghouta á svæði sem er undir stjórn uppreisnarmanna. „Ég bið til Guðs um að hann komi þeim til bjargar.“

Vita ekki hvað bananar og epli eru

Arafat Farhat er frá Misraba og segir að ástandið hafi verið skelfilegt áður en þau gátu forðað sér. „Börnin mín komu til mín og sögðu: pabbi við viljum ekki deyja hérna,“ segir hann. 

„Þetta var þjakandi og ég óskaði þess að ég gæti fórnað lífi mínu fyrir þau. Ég trúi því ekki að við séum enn á lífi,“ segir Farhat. Hann vonast til þess að finna eitthvað að gera en hann var verkamaður áður en stríðið hófst. „Svo ég geti keypt allt sem þau langar í.“

„Ég á barn sem veit ekki hvað banani eða epli er,“ segir hann en fjölskyldan hefur búið við skelfilegar aðstæður í mörg ár.

AFP

Eina sem ég vil er að hitta börnin mín

Þrátt fyrir að börnin séu alsæl í Dweir, hlaupi um og leiki sér í skrautlegum klæðum þá er eldra fólk hrætt og sorgmætt. „Ég vonast til þess að geta snúið aftur til fjölskyldunnar minnar og hitt þau aftur,“ segir Hasan Yahya, 72 ára en fjölskyldan hans er innilokuð í Douma. „Get ég lifað af án barna minna kominn á þennan aldur? Það eina sem ég vil er að sjá þau. Það er það eina sem ég vil í þessu lífi,“ bætir hann við. 

AFP

Á sama tíma og stjórnvöld láta sprengjum rigna yfir íbúa Austur-Ghouta þá minna erindrekar Sameinuðu þjóðanna á að yfir 350 þúsund íbúar Sýrlands hafi verið drepnir á undanförnum sjö árum. 

Fleiri hundruð íbúar Afrin í Norður-Sýrlandi eru á flótta undan árásum Tyrkja þar sem Kúrdar eru í meirihluta. Á sama tíma og íbúar Sýrlands hefja áttunda stríðsárið. 

Mistókst fullkomlega

Sendiherra Bandaríkjanna hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Nikki Haley, greindi frá því á fundi ráðsins í gær að vopnahléið sem öryggisráðið krafðist fyrir tveimur vikum hafi misheppnast fullkomlega og með nýrri samþykkt verði ekki veittur neinn afsláttur. Á meðan öryggisráðið fundaði dundu sprengjuarnar á íbúum Austur-Ghouta. 

Samkvæmt upplýsingum frá Syrian Observatory for Human Rights urðu bæirnir Harasta og Arbin einna verst úti í gær og er fátt sem minnir á að þar búi fólk enda bæirnir að mestu rústir einar. Íbúarnir halda sig neðanjarðar líkt og flestir íbúar Austur-Ghouta enda ekki óhætt að fara upp á yfirborð jarðar ef fólk vill lifa af.

Á sama tíma og fimm herþotur sveima yfir þá reynir MarwanHabaq, sem er lokaður inni í herkvínni rétt fyrir utan höfuðborg Sýrlands, að ímynda sér hvernig honum takist að sameinast fjölskyldu sinni, eiginkonu og nýfæddri dóttur. Hann er örvæntingarfullur um hvernig það takist - eða hvort það takist yfir höfuð þegar fréttamaður New YorkTimes ræðir við hann í gær.

AFP

Rotnandi rusl

Eftir að stjórnarhernum með aðstoð rússneska hersins tókst að skipta Austur-Ghouta upp á þrjú svæði - svipað og gert var þegar umsátrið um Aleppo stóð yfir á sínum tíma, þá stendur Habaq allt í einu uppi aðskilinn frá fjölskyldu sinni.

Þessi uppskipting getur verið síðasti naglinn í líkkistu stjórnarandstæðinga í Austur-Ghouta líkt og gerðist í Aleppo fyrir einu og hálfu ári síðan. 

Stjórnleysi er í algleymi í Austur-Ghouta og reyna íbúarnir, einkum þeir sem búa í Douma, að forða sér undan sprengjunum. Þeir sem búsettir eru á landbúnaðarsvæðum eru með búpening sinn með á flóttanum og reyna líkt og aðrir að troðast inn í kjallara þeirra húsa sem enn eru uppistandandi. 

AFP

„Lyktin af rotnuðu rusli er allt um lykjandi og blandast lyktinni af dýrum,“ segir Thaer al-Dimashqi, aðgerðarsinni og stjórnaraandstæðingur í Douma. Um 100 fjölskyldur hafa flúið inn í hverfið sem hann býr í og segir hann í samtali við NYT að á heimili hans haldi ekki bara til fólk heldur einnig kindur og nautgripir. „Ímyndið ykkur - hér eru kýr inni á heimilunum,“ segir hann.

Í gær gerði hópur harðlínu-íslamista, her íslam, samkomulag við Rússa og SÞ um að heimila brottflutning særðra út af svæðinu sem þeir ráða yfir í norðurhluta Austur-Ghouta til þess að tryggja að þeir fái læknisaðstoð.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert