Hitnar í kolunum við landamærin

Nokkur hundruð manns frá ríkjum Mið-Ameríku mótmæltu harðlega við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í gærkvöldi en fólkið er að reyna að komst yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Æpti fólkið á forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og krafðist þess að hann hleypti þeim inn. Hermenn og óeirðalögregla mynduðu röð hinum megin við landamærin og segja starfsmenn landamæraeftirlitsins að með þessu sé verið að sýna hver viðbrögðin verði ef fólkið reyni að komast yfir San Ysidro-landamærastöðina. 

Á sama tíma hótaði Trump því að loka landamærunum alfarið ef hann telji mexíkósk yfirvöld hafa misst stjórnina á mannfjöldanum. 

Alls eru um sex þúsund bandarískir hermenn við landamærin og segir Trump að ekkert sé því til fyrirstöðu að fjölga þeim enn frekar. 

„Ef við teljum að þetta sé komið á það stig að við séum að missa tökin á aðstæðum eða að fólk fer að meiðast þá munum við loka landamærunum í einhvern tíma eða þangað til við höfum náð stjórn á aðstæðum,“ sagði Trump við fréttamenn.

Hann segir að þar eigi hann við öll landamæri ríkjanna. „Mexíkóar munu ekki geta selt bíla sína í Bandaríkjunum,“ bætti Trump við.

Á nánast sama tíma og lögreglan og hermenn æfðu viðbrögð á landamærum Mexíkó bauð annar hópur fólks frá Mið-Ameríku forseta Bandaríkjanna birginn við landamærastöðina El Chaparral. „Opnaðu hliðin Trump! Við erum ekki að leita að stríði heldur vinnu,“ æpti einn þeirra en um fimm þúsund manns bíða við landamærin. Fólkið, sem er frá Hondúras, hefur komið sér fyrir á íþróttavelli skammt frá landamærunum eftir að hafa verið um mánuð á leiðinni frá heimalandinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert