Andstæðar yfirlýsingar um Sýrland

Sýrlenskir uppreisnarmenn sem njóta stuðning Tyrkja hafa safnast í grend …
Sýrlenskir uppreisnarmenn sem njóta stuðning Tyrkja hafa safnast í grend við borgina Manbij og hafa Kúrdar boðið sýrlenska stjórnarhernum að taka við borginni, en óljóst er hvort herinn er í borginni eða ekki. AFP

Talsmaður sýrlenska stjórnarhersins segir herinn hafa borgina Manbij í norðurhluta Sýrlands á sínu valdi eftir að Kúrdar buðu hernum að taka yfir borgina í ótta um að tyrkneskar sveitir myndu gera árás á hana, að því er segir í umfjöllun BBC.

Tyrkland álítur uppreisnarsveitir Kúrda í Sýrlandi hryðjuverkamenn og kom beiðni Kúrda, sem njóta stuðning Bandaríkjanna, í kjölfar óvæntrar yfirlýsingar Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að Bandaríkin hyggjast kalla heim tvö þúsund manna herlið sitt frá Sýrlandi.

Yfirlýsingin var rökstudd með fullyrðingu þess efnis að Ríki íslams væri sigrað, en sú fullyrðing hefur verið gagnrýnd af mörgum bandamönnum Bandaríkjanna.

Segja stjórnarherinn fara með fleipur

Opinber Twitter-síða hernaðaraðgerðar Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Sýrlandi, „Inherent Resolve,“ segir hins vegar að í andstöðu við yfirlýsingar sýrlenska stjórnarhersins um breytingar á hernaðarlegri viðveru í Manbij sé ekkert sem bendir til þess að þær séu sannar.

AFP segir sýrlenska uppreisnarmenn sem njóta stuðning Tyrkja hafa safnast saman í Sajour milli borganna Jarables og Manbij.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert