Opinn fyrir þriðja fundinum með Kim

Donald Trump tók á móti Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í …
Donald Trump tók á móti Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í Hvíta húsinu í dag og komust þeir ekki hjá því að ræða samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er tilbúinn til að ræða möguleikann á þriðja leiðtogafundi hans og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Frá þessu greindi hann í dag þegar hann tók á móti Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í Hvíta húsinu.

Trump og Moon ræddu samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu og sagðist Trump vera tilbúinn til að hitta Kim á ný og halda áfram viðræðum um að Norður-Kórea láti af kjarnorkuáformum sínum.

„Ég nýt leiðtogafundanna, ég nýt þess að vera með leiðtoganum,“ sagði Trump, og bætti við að hann beri mikla virðingu fyrir honum. „Ég trúi því staðfastlega að með tímanum muni margir risastórir hlutir eiga sér stað. Möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar í Norður-Kóreu.“

Trump og Kim hittust á sögulegum leiðtogafundi í Singapúr í júní í fyrra. Þeir áttu svo annan fund í janúar en þeim fundi var slitið án niðurstöðu um kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Trump hefur samt sem áður haldið því fram að sambandið milli sín og Kim sé gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert