Trump: Ákæra eykur sigurlíkurnar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur að ákæra á hendur honum …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur að ákæra á hendur honum fyrir embættisglöp myndi einfaldlega auka sigurlíkur hans í forsetaskosningunum á næsta ári. AFP

Verði Donald Trump Bandaríkjaforseti ákærður fyrir embættisglöp (e. impeachment) mun það auka líkur hans á að dvelja áfram í Hvíta húsinu að afloknum forsetakosningum á næsta ári.

Þetta er mat forsetans sjálfs en hann kom víða við í viðtali við Chuck Todd í fréttaskýringaþættinum Meet the Press í gærkvöldi. „Ég held að það verði auðveldara að sigra í kosningunum,“ sagði Trump, aðspurður hvaða áhrif hann telji að það hafi á póli­tísk­an fer­il hans ef hann verði ákærður fyr­ir embætt­is­glöp.

„Það var njósnað um mig. Það sem þeir gerðu mér var ólöglegt. Ég gerði ekkert rangt,“ sagði Trump og vísaði í skýrslu Roberts Mu­ell­er um rann­sókn hans á tengsl­um Rússa við for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um 2016. 

Mueller, sem skilaði skýrslu sinni í apríl, komst að þeirri niður­stöðu að ekki væri hægt að álykta að Trump væri sak­laus af ásök­un­um um að hafa hindrað fram­gang rétt­vís­inn­ar. Fjöl­marg­ir hafa í kjöl­farið fram á að for­set­inn verði kærður fyr­ir embætt­is­brot en Demókratar skiptast í tvær fylkingar hvort fara eigi fram á ákæru eða ekki gegn forsetanum. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er ein þeirra sem telur það óráðlegt þar sem stuðningur við ákæruna á þingi er líklega ekki nægilegur.

Trump segir að þar sem Mueller hafi ekki tekist að sýna fram á að neitt leynimakk hafi átt sér stað í kringum forsetakosningarnar 2016 væri ákæra fyrir embættisglöp mjög ósanngjörn.

„Erum með skotmörk út um allt“

Í viðtalinu, sem er rúmur hálftími að lengd og má sjá hér að neðan, fjallaði Trump einnig um spennuna í samskiptum Bandaríkjanna og Íran. Trump sagðist bæði eiga „dúfur og hauka“ í sínum röðum og að skipta skoðanir séu innan ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að bregðast við spennunni.

Todd spurði Trump meðal annars hvort að áætlun forsetans um loftárásir á Íran, sem hann hætti við tíu mínútum áður en þær áttu að hefjast, hefði verið fyrirfram ákveðin. „Að sjálfsögðu, við höfum margar. Ég hef svo mörg skotmörk að þú tryðir því ekki. Við erum með skotmötk út um allt,“ sagði forsetinn.


mbl.is