Epstein ákærður fyrir mansal

Jeffrey Epstein.
Jeffrey Epstein. AFP

Bandaríski milljarðarmæringurinn Jeffrey Epstein hefur verið handtekinn og ákærður fyrir mansal. Epstein var handtekinn í New York og mun koma fyrir dómara á morgun.

Epstein hefur áður verið sakaður um að misnota stúlkur. Hann slapp við ákæru þess efnis árið 2008 þegar hann gerði samkomulag við alríkisyfirvöld.

Samkvæmt samkomulaginu gekkst Epstein við tveimur minni brotum og sat inni vegna þeirra í þrettán mánuði en hann hefði átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi samkvæmt hinum ákærunum.

Lögfræðingar Epstein, sem er 66 ára, hafa ekki tjáð sig um ákæruna.

Lögreglumönnum hefur verið meinað að tjá sig um málið en nokkrir hafa rætt það við bandaríska fjölmiðla undir nafnleynd.

Einn þeirra sagði AP-fréttastofunni að ásakanirnar gegn Epstein snúi að því að hann hafi borgað stúlkum undir lögaldri fyrir nudd og síðan hafi hann misnotað þær. Þetta hafi gerst á heimilum hans í New York og Florida.

Dómari í Florida komst að því fyrr á árinu að saksóknarar hefðu brotið lög þegar fórnarlömb Epstein voru ekki látin vita af samkomulaginu fyrir ellefu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka