Dorian ber að dyrum Bandaríkjamanna

Fellibylurinn Dorian hefur sótt í sig vind á leið sinni frá Bahamaeyjum að strönd Karólínu í Bandaríkjunum. Hann er nú þriðja stigs fellibylur eftir að hafa farið tímabundið niður í tvö stig í gær. Að minnsta kosti 20 eru látnir og eyðileggingin er gríðarleg, segir forsætisráðherra Bahamaeyja, Hubert Minnis.

Minnis staðfesti á fundi með blaðamönnum að 20 hefðu fundist látnir og að skemmdirnar væru þannig að ekki hefði verið hægt að ímynda sér þær fyrirfram.

Bandaríska strandgæslan og breski herinn hafa unnið að því baki brotnu að flytja fórnarlömb Dorian í neyðarskýli þar sem heimili fjölmargra eyjaskeggja eru umlukt vatni. Dorian nálgast nú Suður-Karólínu hratt og örugglega en vindhraðinn er nú 52 metrar á sekúndu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum eru að minnsta kosti 70 þúsund íbúar á tveimur eyjum, Grand Bahama og Abaco, í brýnni þörf fyrir aðstoð. 

Minnis varar þjófa við því að notfæra sér ástandið og heitir því að þeir sem verði uppvísir að því að fara um rænandi og ruplandi verði saksóttir. Að sögn Marks Lowcocks, yfirmanns neyðaraðstoðar SÞ, eru um 50 þúsund íbúar Grand Bahama í sárri neyð vegna matar-, vatns- og lyfjaskorts en á milli 15 og 20 þúsund íbúar á Abaco eru í sömu sporum.

Fastlega má gera ráð fyrir að Dorian banki á dyr íbúa við strönd Suður-Karólínu fljótlega og fari þaðan til Norður-Karólínu í nótt og á morgun. Hins vegar bendir allt til þess að íbúar Flórída sleppi með skrekkinn. „Við erum heppin í Flórída, mjög, mjög heppinn í raun,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þegar hann ræddi við fréttamenn.

mbl.is