Fjölgun símtala til neyðarnúmers vegna barna

Adrien Taquet barnavelferðarráðherra Frakklands.
Adrien Taquet barnavelferðarráðherra Frakklands. AFP

Símtölum í franska neyðarnúmerið vegna ofbeldis og misnotkunar gegn börnum hefur fjölgað mjög frá því að útgöngubann var sett á í landinu. Frá þessu greindu þarlend yfirvöld fyrr í dag og segja tölurnar staðfesta þann ótta að innilokun gæti valdið meiri hættu á heimilisofbeldi.

Neyðarnúmerinu hafa borist um 20% fleiri símtöl síðan útgöngubann tók gildi 17. mars, sagði Adrien Taquet barnavelferðarráðherra. Hins vegar hefur símtölum sem flokkuð eru sem gríðarlega aðkallandi og krefjast aðgerða lögreglu þegar í stað fjölgað um 60% síðustu fjórar vikur, bætti Taquet við.

Áttu von á fjölgun

Gaf hann ekki út nákvæmlega hversu mörg símtöl um ræddi en árið 2015, sem eru nýjustu tölur, bárust neyðarnúmerinu að meðaltal 90 símtöl dag hvern. 

„Við áttum von á slíkri fjölgun símtala því við vitum að innilokun stuðlar að meira ofbeldi,“ sagði Taquet. Bætti hann hins vegar við að herferðir til að vekja almenning til hugsunar og sá nýi möguleiki að börn geti haft samband við yfirvöld í gegnum SMS eða netið, sem hægt er að gera á laun og án þess að vekja athygli mögulega ofbeldishneigðs foreldris, „eru líklega einnig að bera ávöxt“.

Hlaupagarpur við Louvre-safnið í París, hvar útgöngubann er í gildi.
Hlaupagarpur við Louvre-safnið í París, hvar útgöngubann er í gildi. AFP
mbl.is