Dauði Brooks úrskurðaður manndráp

Dauði Rayshard Brooks, svarts Bandaríkjamanns sem skotinn var af lögreglumanni í Atlanta í Georgíu-ríki á föstudag, er manndráp. Þetta er niðurstaða réttarmeinafræðings sem skilaði skýrslu í gær. 

Í krufningarskýrslunni segir að Brooks hafi hlotið tvö skotsár í bakið sem ollu blóðmissi og skemmdum á líffærum. Saksóknari í Fulton-sýslu í Atlanta segir í samtali við CNN að þrátt fyrir úrskurð réttarmeinafræðings gæti Rolfe verið ákærður fyrir morð. 

Brooks, sem var 27 ára, lést þegar hann flúði tvo lögreglumenn sem hugðust handtaka hann á bílastæði við Wen­dy‘s-veit­ingastaðinn á föstu­dags­kvöld. Erika Shields, lög­reglu­stjóri í Atlanta, hef­ur stigið til hliðar eft­ir atvikið og ný bylgja mót­mæla gegn ras­isma og lög­reglu­of­beldi er haf­in í Atlanta vegna máls­ins.

Fleiri þúsund íbú­ar Atlanta fylltu göt­ur borg­ar­inn­ar um helgina og kölluðu eft­ir aðgerðum í kjöl­far dauða Brooks. Talið er að um 15 þúsund manns hafi komið saman og mótmælt í gær. Garrett Rol­fe, lögreglumanninum sem skaut Brooks, hefur verið sagt upp störf­um og fé­lagi hans hef­ur verið færður til í starfi á meðan at­vikið er rann­sakað.

Brooks, sem var 27 ára, lést þegar hann flúði tvo …
Brooks, sem var 27 ára, lést þegar hann flúði tvo lögreglumenn sem hugðust handtaka hann á bílastæði við Wen­dy‘s-veit­ingastaðinn á föstu­dags­kvöld. AFP

Lögregla var kölluð til á bílastæðið vegna Brooks sem var sof­andi í bíl sín­um sem er sagður hafa hindrað um­ferð á bíla­stæðinu fyr­ir utan staðinn. Þegar þeir komu á vett­vang reynd­ist Brooks vera und­ir áhrif­um áfeng­is og til­raun var gerð til að hand­taka hann. Brooks streitt­ist á móti og í átök­un­um við lög­reglu­menn­ina náði hann raf­byssu af öðrum þeirra og hóf að hlaupa af vett­vangi.

Lög­reglu­menn­irn­ir eltu Brooks sem er sagður hafa snúið sér við á hlaup­um og beint raf­byss­unni að lög­reglu­mönn­un­um sem náðu að skjóta hann með raf­byssu. Óljóst er hvað gerðist næst en á mynd­bands­upp­töku, sem ekki var beint að átök­un­um, heyrðust skot stuttu síðar. Brooks var færður á sjúkra­hús þar sem hann fór í aðgerð en lést af sár­um sín­um.

Þeir verða að fara í fangelsi“

„Ég vil að þeir fari í fangelsi,“ segir Tomika Miller, eiginkona Brooks, í samtali við CBS-fréttastöðina. „Ef eiginmaður minn hefði skotið þá væri hann í fangelsi. Hann fengi lífstíðardóm. Þeir verða að fara í fangelsi.“

Atvikið er það 48. á þessu ári sem yfirvöld í Georgíu-ríki rannsaka sérstaklega þar sem lögregla beitir skotvopnum í aðgerðum sínum. Í 15 þessara tilfella er um dauðsfall að ræða. Búist er við frekari mótmælum í Atlanta í dag vegna dauða Brooks. 

Frétt BBC

Ný bylgja mót­mæla gegn ras­isma og lög­reglu­of­beldi er haf­in í …
Ný bylgja mót­mæla gegn ras­isma og lög­reglu­of­beldi er haf­in í Atlanta vegna dauða Reayshard Brooks, 27 ára svarts Bandaríkjamanns sem var skotinn af lögreglu á föstudag. Brooks lést af sárum sínum á spítala. AFP
mbl.is