Mississippi fjarlægir suðurríkjafánann

Fáni Mississippi blaktir við hún utan við ríkisþinghúsið. Nýr fáni …
Fáni Mississippi blaktir við hún utan við ríkisþinghúsið. Nýr fáni verður tekinn í notkun síðar á árinu. AFP

Báðar deildir ríkisþings Mississippi hafa samþykkt lög um að fjarlægja fána suðurríkjanna úr ríkisfánanum. Þá hefur repúblikaninn Tate Reeves ríkisstjóri sagst munu skrifa undir nýju lögin. Öruggur meirihluti var fyrir breytingunni í báðum deildum þingsins, 91-23 í fulltrúadeild en 37-14 í öldungadeild.

Mississippi er síðasta ríki Bandaríkjanna til að fjarlægja tákn suðurríkjanna úr fána sínum. Fáninn var tekinn í notkun árið 1894, tæpum fjörutíu árum eftir að bandarísku borgarastyrjöldinni lauk með ósigri suðurríkjanna.

Margir hafa mótmælt því að suðurríkjunum hafi verið gert svo hátt undir höfði og þótt fáninn tákn um rasisma og virðingu fyrir landráðamönnunum sem sögðu sig úr bandarískum lögum. Hefur sjónarmið það fengið byr undir báða vængi í mótmælum gegn kynþáttafordómum sem geisað hafa um öll Bandaríkin síðustu vikur, og má segja að hér sé um enn einn áfangasigur mótmælenda að ræða.

Níu manna nefnd verður skipuð til að hanna nýjan fána og verður kosið um hann í nóvember, en þegar liggur fyrir að hann mun innihalda kjörorðið „Við treystum á Guð“ (e. In God We Trust).

mbl.is