75 ár frá kjarnorkuárásinni á Hírósíma

Sprengingin í Hírósíma.
Sprengingin í Hírósíma. AFP

Um þessar mundir eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárás Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí. 

Morguninn 6. ágúst 1945 var kjarnorkuvopnum beitt í fyrsta skipti þegar Bandaríkjamenn, með samþykki Breta, vörpuðu sprengju á Hírósíma. Þremur dögum síðar var samskonar kjarnorkusprengju varpað á borgina Nagasakí. 

Sumarið 1945 var stríðinu við Þjóðverja lokið og Japanir, sem þó neituðu að gefast upp, voru á undanhaldi í stríði sínu við Bandaríkjamenn. Enola Gay, sérútbúin B-29 sprengjuflugvél undir stjórn Paul Tibbets, flaug yfir Hírósíma um korter yfir átta að morgni dags 6. ágúst, en flugvélin hafði að geyma úransprengjuna „little boy“, sem var síðan sleppt yfir borginni úr 10 þúsund metra hæð. Sprengjan sprakk í um 600 metra hæð yfir borginni þennan morgun og byggingar í um þrettán kílómetra radíus gjöreyðilögðust. 

Kjarnorkusprengjan „little boy“.
Kjarnorkusprengjan „little boy“. AFP

Um 80 þúsund manns létust samstundis við sprenginguna í Hírósíma og 70 þúsund særðust. 

Þremur dögum síðar sprakk plútoníumsprengjan „fat man“ yfir Nagasakí. Borgin var staðsett í skjóli fjalls svo sprengingin varð ekki eins skaðleg og í Hírósíma. Um 74 þúsund íbúar Nagasakí létust samstundis og álíka margir særðust. Sama dag, 9. ágúst, fór forsætisráðherra Japans þess á leit við Hirohito Japanskeisara að ákvörðun yrði tekin um uppgjöf Japana í stríðinu. 

Japanir gáfust formlega upp 15. ágúst og friðarsáttmáli var undirritaður 2. september. Alls létust fleiri en 200.000 íbúar Hírósíma og Nagasakí í árásunum eða vegna sára sinna eða geislunar í kjölfarið. 

Friðarsafnið í Hírósíma.
Friðarsafnið í Hírósíma. AFP

75 árum síðar er Enola Gay sprengjuflugvélin til sýnis í Washington-umdæmi í Bandaríkjunum. Þá stendur minnisvarði um árásirnar þar sem sprengjan féll á Friðarsafninu í Hírósíma. 

Minnast sprenginganna 

Sagnfræðingar hafa deilt um það hvort að árásirnar á japönsku borgirnar tvær hafi bjargað lífum borgara, með því að leiða til loka stríðsins og koma í veg fyrir fleiri innrásir. Þeir útreikningar hafa litla þýðingu fyrir þá sem lifðu sprengingarnar af og hafa glímt við eftirmála þeirra allt sitt líf. Eftirlifendur hafa margir gerst ötulir andstæðingar kjarnorkuvopna og rætt við leiðtoga í Japan og víðar um afvopnavæðingu. 

Árið 2016 varð Barrack Obama fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að heimsækja Hírósíma. Hann baðst ekki afsökunar fyrir hönd Bandaríkjanna, en ræddi við eftirlifendur og kallaði eftir kjarnorkuvopnalausum heimi. 

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnalamba kjarnorkuárásanna og um leið minnt á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. 

Samstarfshópur friðarhreyfinga hefur ákveðið að í ár verði haldin táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem tekin verður upp og streymt á netinu annað kvöld. 

Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu í kvöld, um sama leyti og Hírósímasprengingin sprakk fyrir 75 árum. 

Frétt CNN

mbl.is