Segir Trump hafa hvatt til hryðjuverka

„Það er ótrúlega truflandi að forseti Bandaríkjanna hvetji til svona …
„Það er ótrúlega truflandi að forseti Bandaríkjanna hvetji til svona hryðjuverka,“ sagði Whitmer í viðtali í gær. AFP

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan í Bandaríkjunum, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa hvatt til hryðjuverka í Bandaríkjunum á fjöldafundi þegar hann sagði að það ætti að „læsa þau öll inni“. Ráðgjafi Trumps vísar því á bug og segir forsetann einungis hafa verið að skemmta sér á fjöldafundi.

Ummæli bæði Whitmer og Trumps tengjast áformum þrettán manna um að ræna Whitmer, sem er demókrati, fyrir um tíu dögum. 

Á umræddum fjöldafundi sem fram fór á laugardag gagnrýndi Trump þær aðgerðir sem Whitmer hefur komið á í Michigan í því skyni að lágmarka útbreiðslu kórónuveirusmita. Trump sakaði Whitmer, sem hann hefur áður kallað einræðisherra, um að grípa til harðra aðgerða að óþörfu. Þá hóf fólksfjöldinn að hrópa: „Læstu hana inni!“ aðeins rúmri viku eftir að alríkislögreglan afhjúpaði samsæri öfgamanna um að ræna Whitmer og fella ríkisstjórn Bandaríkjanna. 

„Læstu þau öll inni

Í stað þess að fordæma atburðarásina, sem leiddi til þess að rúmur tugur manna var kærður fyrir hryðjuverk, samsæri og vopnaburð, svaraði Trump fagnaðarlátunum með því að segja: „Læstu þau öll inni.“ 

Lara Trump, tengdadóttir Trumps og pólitískur ráðgjafi hans, lýsti ákalli Trumps um að læsa ríkisstjórann inni sem skemmtun af hans hálfu, í viðtali við CNN í gærkvöldi. 

„Það er ótrúlega truflandi að forseti Bandaríkjanna hvetji til svona hryðjuverka,“ sagði Whitmer í viðtali í gær. 

„Þetta er hættulegt. Ekki bara fyrir mig og mína fjölskyldu heldur fyrir opinbera starfsmenn víða um land sem eru að vinna vinnuna sína og reyna eftir bestu getu að vernda þjóðina sína,“ bætti Whitmer við. 

Lara Trump er bæði tengdadóttir Trumps og pólitískur ráðgjafi hans.
Lara Trump er bæði tengdadóttir Trumps og pólitískur ráðgjafi hans. AFP

„Hann var ekki að gera neitt, held ég

Lara Trump virtist ekki vera sammála Whitmer þegar hún ræddi málið við CNN. 

„Hann var ekki að gera neitt, held ég, til að ógna þessari konu. Hann var að skemmta sér á fjöldafundi,“ sagði Lara Trump um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert