Átta handteknir í Covid-mótmælum í Kaupmannahöfn

Myndin er tekin á mótmælum í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði.
Myndin er tekin á mótmælum í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði. AFP

Átta voru handteknir í fjölmennum mótmælum gegn sóttvarnareglum í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Hópur sem kallar sig Men in Black stóð að baki mótmælunum, en hann hefur staðið fyrir nokkrum uppákomum víða um Danmörku síðustu vikur og mánuði.

Lögregla telur að um 1.200 manns hafi verið samankomnir á Ráðhústorginu um klukkan 22 þegar mótmælin náðu hápunkti. Mótmælin voru að mestu friðsamleg en þeir handteknu voru teknir fyrir að kasta flugeldum í átt að lögreglu, fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu og ofbeldi í garð hennar. Mótmæli fóru einnig fram í Árósum á laugardag.

Strangar samkomutakmarkanir hafa verið í Danmörku frá því skömmu fyrir jól. Nú á mánudag verður í fyrsta sinn síðan þá slakað á aðgerðum, þegar verslunum og stöku íþrótta- og menningarstofnunum verður leyft að opna á nýjan leik. Aðrar takmarkanir, á borð við lokun veitinga- og skemmtistaða auk framhalds- og háskóla, hafa þó verið framlengdar til 5. apríl.

mbl.is