Reyna lögmæti kórónusekta

Tvær konur í Bergen una ekki sektarboði lögreglu eftir gleðskap …
Tvær konur í Bergen una ekki sektarboði lögreglu eftir gleðskap í nóvember og láta nú reyna á sóttvarnareglugerð borgarinnar, sem í gildi var á þeim tíma, fyrir héraðsdómi. Lagaprófessor sagði reglugerðina á sínum tíma mannréttindabrot og var talið vafamál hvort hún ætti sér lagastoð. Ljósmynd/Wikipedia.org/Christian Bickel

Tvær konur í Bergen í Noregi hyggjast láta reyna á lögmæti sekta, sem þeim voru gerðar í nóvember fyrir brot gegn samkomureglum, fyrir dómi og hefst aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Hörðalands í dag, en þar er á ferð fyrsta dómsmál í Noregi um sektir vegna slíkra brota.

Forsaga málsins hófst aðfaranótt 15. nóvember þegar lögreglan í Bergen leysti upp samkvæmi í íbúð í Sandviken þar í borg. Þar hittust fyrir 15 manns sem var mun meiri fjöldi en mátti koma saman á heimilum samkvæmt nýrri reglugerð borgarinnar á þeim tíma.

Skrifuðu lögregluþjónar út sektir að andvirði 70.000 norskar krónur sem jafngildir rúmlega milljón íslenskra króna. Hlutu konurnar tvær 10.000 og 5.000 króna sekt, en sú sem hærri sektina fékk var húsráðandi á staðnum og taldist því hafa staðið fyrir samkvæminu. Tveir gestanna forðuðu sér af vettvangi áður en lögreglu tókst að boða þeim sekt.

Eðlilegt framhald umræðu

Didrik Beck Rodarte lögmaður flytur mál kvennanna fyrir héraðsdómi. Segir hann í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að varnaraðilar málsins setji sig engan veginn upp á móti sóttvörnum, hins vegar telji þeir reglugerð borgaryfirvalda í Bergen, sem á þeim tíma mælti fyrir um að fleiri en fimm manns mættu ekki koma saman á heimilum, hafa skort stoð í sóttvarnalögum.

Tveimur dögum áður en til samkvæmisins á heimili konunnar kom náðu smittölur í Bergen mestu hæðum sem um getur í borginni á tíma faraldursins. Varð Bergen þá fyrsta sveitarfélag landsins sem setti sér reglugerð um hámarksfjölda gesta á heimilum og risu nokkrar deilur um þá framkvæmd.

Síðar kom í ljós að sóttvarnalæknir Bergen hafði aldrei mælst til þess að slík reglugerð yrði sett auk þess sem lögregla kvaðst ekki hafa fengið nægan fyrirvara áður en nýju reglurnar tóku gildi. „Enginn vafi leikur á réttmæti þess að dómstóll fjalli um málið, mikil gagnrýni hefur verið höfð uppi um framkvæmdina og þetta er bara eðlilegt framhald þeirrar umræðu,“ segir Rodarte.

Málið verði fordæmi

Hans Fredrik Marthinussen, prófessor í lögum við Háskólann í Bergen, er einn þeirra sem hafa gagnrýnt vinnulag borgarinnar í málinu, en hann lét hafa eftir sér á sínum tíma, að fimm manna reglan væri hugsanlega mannréttindabrot.

„Ég er enn í dag þeirrar skoðunar að forsendur fyrir svo miklu inngripi, sem reglugerðin fól í sér, hafi ekki verið til staðar og hún hafi því verið ógild. Þar með verður fólki ekki refsað fyrir að brjóta gegn henni,“ segir prófessorinn og bætir því við að málið sem nú hefst fyrir Héraðsdómi Hörðalands muni hafa fordæmisgildi fyrir sambærileg mál í framtíðinni.

NRK

VG

Bergensavisen (læst áskriftargrein)

mbl.is