Ófrísk lögreglukona myrt í Afganistan

Fjöldi fólks hefur látist í stríðsátökum sem geisað hafa í …
Fjöldi fólks hefur látist í stríðsátökum sem geisað hafa í Afganistan frá því að talíbanar hertóku landið. AFP

Vígamenn talíbana hafa verið sakaðir um að hafa myrt ófríska lögreglukonu í Firozkoh, í miðhluta Ghor-héraðsins í Afganistan í gær. Frá þessu er greint í frétt BBC.

Upplýsingar um atvikið eru enn óljósar þar sem íbúar í Firozkoh óttast að þeim verði refsað fyrir að tjá sig um morðið. Þrír heimildamenn fréttastofunnar BBC hafa þó greint frá því að fórnalambið, sem er kona að nafni Banu Negar samkvæmt afgönskum fjölmiðlum, hafi verið barin og svo skotin til bana á heimili sínu, fyrir framan eiginmann sinn og börn þeirra.

Að sögn aðstandenda hafi þrír vopnaðir menn brotist inn á heimili þeirra og bundið heimilismenn niður áður en þeir misþyrmdu og myrtu svo Banu.

Umræddir innbrotsmenn heyrðust tala arabísku, að sögn vitnis.

Talíbanar neita sök í málinu

Þegar fréttastofa BBC leitaði viðbragða talíbana neituðu þeir sök í málinu.

„Við erum meðvitaðir um atvikið og ég get fullyrt að það voru ekki talíbanar sem myrtu hana. Málið er í rannsókn,“ segir Zabiullah Mujaheed, talsmaður talíbana.

Þá bætti hann því við að talíbanar hafi þegar lýst yfir almennri sakaruppgjöf og að líklegra væri að Banu hafi verið myrt vegna „persónulegrar óvildar“ eða af einhverri annarri ástæðu.

Banu, sem hafði starfað sem lögreglukona í fangelsi héraðsins, var gengin átta mánuði á leið þegar hún var myrt, að sögn fjölskyldu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert