Birta myndir af „áhöfninni á Moskvu“

Flaggskip Rússlands í Svartahafi, Moskva.
Flaggskip Rússlands í Svartahafi, Moskva. AFP

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur birt myndir af mönnum sem þeir segja vera áhöfnin á Moskvu, flaggskipi Rússa í Svartahafi.

BBC greinir frá.

Þetta er í fyrsta sinn sem myndir eru sýndar af áhöfninni síðan skipið sökk, fyrr í vikunni.

Myndefnið sýnir stóran hóp skipsverja, sem sagðir eru vera áhöfn Moskvu, í skrúðgöngu í hafnarborginni Sevstopol á Krímskaga, ásamt sjóhersforingjanum Adm Nikolaí Yevmenov.

Örlög skipsins eru sögð bæði niðurlæging fyrir rússneska flotann sem og stórt högg á samstöðu og baráttuanda Rússa.

Varnarmálaráðuneytið tilkynnti að Moskva hafi sokkið á fimmtudaginn í óveðri þar sem eldur hafði komið upp í skipinu. Her Úkraínu hafði áður tilkynnt um að þeim hafi tekist að skjóta á skipið og sökkva því með svokölluðum Neptúnusar-eldflaugum.

Samkvæmt upplýsingum frá Rússlandi var áhöfnin flutt til Sevastopol á Krímskaga – sem Rússar innlimuðu árið 2014. Er myndefnið sem nú hefur verið birt, þó fyrsta sönnun þess að nokkur hafi komist lífs af úr skipinu. 

mbl.is