Segir demókrata drepa „hörmungum“ á dreif

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti sagði rann­sókn á til­drög­um og mála­vöxt­um árás­ar­inn­ar á þing­hús Banda­ríkj­anna, 6. janú­ar 2021, vera „kengúrudómstól“, en vitnaleiðslur fóru fram í gær um atburðinn fyr­ir rann­sókn­ar­nefnd full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings.

Í tólf blaðsíðna yfirlýsingu segir Trump að rannsóknin sé leið demókrata til að afvegaleiða athygli Bandaríkjamanna frá „hörmungunum“ sem séu núverandi stjórn ríksins. 

Helsta um­fjöll­un­ar­efni gærdags­ins var hvort að Trump hefði mátt vera ljóst að hann hefði beðið ósig­ur í for­seta­kosn­ing­un­um í nóv­em­ber 2020 þegar hann hélt hinu gagn­stæða fram. Nánir samstarfsmenn hans komu fram sem vitni fyrir nefndinni. 

Frá vitnaleiðslum nefndarinnar í gær. Meðal þeirra sem komu fram …
Frá vitnaleiðslum nefndarinnar í gær. Meðal þeirra sem komu fram var Bill Stepien, kosn­inga­stjóra Trumps. AFP

„Sautján mánuðum eftir atburði 6. janúar geta demókratar enn ekki komið með lausnir,“ sagði í yfirlýsingu Trump. 

„Þeir eru í örvæntingu sinni að reyna að breyta frásögn þjóðarinnar sem hefur fallið, án þess einu sinni að minnast á þá eyðileggingu og dauðann sem varð af völdum róttækra vinstrisinna einungis nokkrum mánuðum fyrr,“ sagði hann og vísaði þar til óreiðanna sem urðu sumarið 2020 vegna kynþáttamismununar. 

„Ekki misskilja, þeir stjórna ríkisstjórninni. Hörmungarnar eru þeim að kenna. Þeir vonast til þess að þessar vitnaleiðslur muni einhvern veginn breyta misheppnaðri framtíðarsýn þeirra.“

Bandaríkin að steypast um koll

Bróðurpartur yfirlýsingarinnar fór í að endurtaka þá órökstuddu tilgátu Trump að kosningasvindl hafi átt sér stað í forsetakosningunum. 

Örfá tilfelli slíkra mála hafa komið í ljós og hafa verið kærð en ekki það mörg að Trump hefði sigrað kosningarnar sem fóru fram í nóvember árið 2020. 

Þá kallaði Trump núverandi forseta „Kjallara-Biden“ (e. basement Biden) og sagði að Bandaríkin væru á að steypast um koll undir stjórn Joe Biden.

Yfirheyrslur rannsóknarnefndarinnar halda áfram á morgun og á fimmtudaginn.

mbl.is