Á sjötta hundrað látnir eftir jarðskjálftann

Viðbragðsaðilar að störfum í Idlib-héraði í Sýrlandi.
Viðbragðsaðilar að störfum í Idlib-héraði í Sýrlandi. AFP/Aaref Watad

Á sjötta hundrað manns eru látnir í Sýrlandi og Tyrklandi eftir jarðskjálfta upp á 7,8 stig sem átti upptök sín í suðausturhluta Tyrklands, skammt frá landamærum ríkjanna. Þar af eru að minnsta kosti 245 manns látnir í Sýrlandi og að minnsta kosti 284 í Tyrklandi.

Í Sýrlandi fórust yfir 230 og yfir 600 slösuðust á stríðshrjáðum svæðum Sýrlands sem ríkisstjórn landsins ræður yfir, að sögn heilbrigðisráðuneytis landsins. Fregnir bárust jafnframt frá sjúkrahúsi um að átta til viðbótar hefðu farist á svæðum í norðurhluta Sýrlands.

Manni bjargað úr rústum byggingar í sýrlenska landamærabænum Azaz.
Manni bjargað úr rústum byggingar í sýrlenska landamærabænum Azaz. AFP/Bakr Alkasem

„649 slösuðust og 237 fórust í héruðunum Aleppo, Latakia, Hama og Tartus,“ sagði sýrlenska heilbrigðisráðuneytið í yfirlýsingu.

Skelkaðir íbúar í norðurhluta Sýrlands hlupu út úr heimilum sínum eftir að skjálftinn gekk yfir snemma í morgun skammt frá tyrknesku borginni Gaziantep, um 40 kílómetrum frá sýrlensku landamærunum.

Viðbragðsaðilar leita í óðaönn að eftirlifendum í rústum bygginga.

AFP/Rami al Sayed

Varaforseti Tyrklands, Fuat Oktay, sagði að auk hinna 284 sem hefðu farist væru yfir 2.300 slasaðir í einum stærsta jarðskjálfta Tyrklands í að minnsta kosti eina öld. Viðbragðsaðilar eru að störfum í þó nokkrum stórum borgum, bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert