Tala látinna komin í 1.800

Björgunarsveitarmenn með mann sem náðist úr rústunum í bænum Jan-daris …
Björgunarsveitarmenn með mann sem náðist úr rústunum í bænum Jan-daris í Sýrlandi. AFP/Bakr Alkasem

Eftir því sem liðið hefur á daginn hefur tala látinna hækkað í Tyrklandi og Sýrlandi eftir skelfilega jarðskjálftahrinu sem hófst snemma í morgun kl. 4:17 að staðartíma. Að minnsta kosti 783 manns létust í Sýrlandi, að sögn ríkisfjölmiðla og lækna. Aðrir 1.014 létust í Tyrklandi, að sögn Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.

Í kjölfar upphafsskjálftans fylgdu 50 eftirskjálftar í kjölfarið, og þar á meðal sá stærsti upp á 7,5 að stærð. Hann gekk yfir þegar bæði leitar- og björgunarstarf var hafið rétt eftir hádegið. Þeir sem lifðu skjálftann af þustu út á snævi þaktar göturnar á náttfötunum og horfðu á björgunarmenn grafa sig í gegnum brakið af skemmdum heimilum með höndunum.

Fólk er í áfalli að leita ættingja sinna í rústunum. …
Fólk er í áfalli að leita ættingja sinna í rústunum. - AFP/Can Erok

Skelfing að vita af fjölskyldunni í rústunum

„Sjö úr fjölskyldu minni eru undir brakinu,“ sagði Muhittin Orakci, sem var í áfalli í kúrdísku borginni Diyarbakir í Tyrklandi við AFP-fréttastofuna.

„Systir mín og börnin hennar þrjú eru þarna. Og líka maðurinn hennar, tengdafaðir hennar og tengdamóðir.“

Flugvellir óstarfhæfir vegna skjálftanna

Kuldi og snjór hefur hamlað björgunarstarfinu og að sögn embættismanna voru þrír stórir flugvellir óstarfhæfir vegna skjálftans. Rafmagnsleysi er út um allt og heilu bæjarhverfin eru rústir einar. Búist er við að fjöldi manns sé enn í rústunum en aðstæður gera björgunina erfiða. 

Svæðið er mikið jarðskjálftasvæði, en skjálfti af þessari stærð hefur ekki dunið á síðan 1939 þegar 33 þúsund manns létust í Erzincan, austurhéraði Tyrklands.

 

 

mbl.is