Fá upplýsingar um gríðarhá lán

Glitnir
Glitnir Friðrik Tryggvason

Dómkvaddir matsmenn í máli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gegn Glitni banka fá upplýsingar um nærri níutíu milljarða króna lánveitingar til nokkurra félaga á síðari hluta ársins 2007 og fyrri hluta árs 2008. Í flestum tilvikum voru lánin notuð til að kaupa hluti í Glitni, með veði í bréfunum.

Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu á dögunum en málið höfðaði lífeyrissjóðurinn vegna skuldabréfs sem hann keypti af Glitni 15. apríl 2008. Heildarverðmætið var 15 milljarðar króna og krefst lífeyrissjóðurinn að slitastjórn Glitnis viðurkenni 472.260.380 krónu kröfu við slitameðferð Glitnis og að kröfunni verði skipað sem almennri kröfu í réttindaröð. 

Lífeyrissjóðurinn ber við að við útgáfu skuldabréfaflokksins hafi starfsmenn Glitnis lýst því yfir að bankinn stæði vel að vígi fjárhagslega, hefði gott tekjustreymi, sterkt og gott eignasafn, auk þess sem eiginfjárhlutfall hans væri vel yfir lögboðnum mörkum. Þetta hafi hins vegar bersýnilega verið rangar upplýsingar og það hafi fyrirsvarsmenn bankans vitað eða mátt vita. Því sé samningurinn um skuldabréfið ógildanlegur á grundvelli reglna samningaréttar um brostnar forsendur og ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Sökum þess telur lífeyrissjóðurinn sig eiga rétt á endurgreiðslu þeirrar upphæðar sem að ofan greinar og skaðabótum.

Vafningur, Stím og FL-Group

Undir rekstri málsins hefur verið skorað á Glitni að leggja fram ýmis gögn. Hafnað hefur framlagningu ýmissa gagna og því var farið fram á að héraðsdómur úrskurðaði um það atriði. Nú hafa bæði héraðsdómur og Hæstiréttur komist að niðurstöðu. Glitni banka er skylt að afhenda dómskvöddum upplýsingar um eftirfarandi lánamál:

Auk þess fá matsmenn yfirlit yfir allar lánveitingar og samninga, annars vegar miðað við 31. desember 2007, og hins vegar miðað við 31. mars 2008 þar sem hlutabréf í Glitni sjálfum og 17 öðrum tilgreindum félögum voru til tryggingar.

BK-44 með gríðarlega stórt lán

Lánveitingarnar sem matsmennirnir fá upplýsingar hafa mörg hver verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara og eins og áður segir hefur dómur fallið vegna einnar þeirrar. Sérstaka athygli vekur 17,1 milljarða króna lán til félagsins BK-44 en það félag var til umfjöllunar fjölmiðla í lok maí vegna dómsmáls sem sérstakur saksóknari höfðaði. Í því máli var ákært vegna 3,8 milljarða króna lánveitingar í nóvember 2007.

Ekkert kom fram við aðalmeðferðina í BK-44-málinu um 17,1 milljarða króna lánveitinguna sem félaginu var veitt skömmu síðar, en samkvæmt heimildum mbl.is mun það hafa verið í árslok 2007. Sérstakur saksóknari sagði um 3,8 milljarða króna láveitinguna, að ekk­ert hefði verið sett á blað um hana, eng­inn lána­stjóri hafi komið að mál­inu, eng­in lána­beiðni út­gef­in, ekki hafi verið rætt um viðskipt­in í áhættu­nefnd Glitn­is eða lána­nefnd­um, ekki gengið frá trygg­ing­um, gjald­færni BK-44 hafi ekki verið könnuð, ekki hafi verið farið eft­ir und­ir­skrift­ar­regl­um og samn­ing­ur ekki skjalfest­ur. Þrátt fyr­ir það nam hlut­ur­inn um einu pró­senti af hlut­um í bank­an­um.

Á þessum tíma var Birkir Kristinsson, eigandi BK-44, starfsmaður í einkabankaþjónustu Glitnis og hafði þar með stærstu fjárfesta Glitnis að gera. Hann var sjálfur eigandi í félaginu Gnúpi sem tengdist FL Group, Glitni og öðrum bönkum sterkum böndum. Yfirmaður Birkis í einkabankaþjónustunni gaf skýrslu fyrir dómi og sagði viðskipti Birkis með bréf í bankanum hafa verið óþægileg, s.s. að hann hefði tekið svo stóra stöðu í Glitni.

Félagið BK-44 hét áður MK-44 og var þá í sameiginlegri eigu þeirra Birkis og Magnúsar Kristinssonar, bróður Birkis. Skiptum á einu félaga Magnúsar, Smáey, lauk í síðasta mánuði. Ekk­ert fékkst upp í 66,7 millj­arða kröf­ur í þrota­búið en það átti meðal ann­ars Ber­gey ehf., sem var eig­andi Toyota umboðsins, Yamaha á Íslandi, Gísla Jóns­son­ar ehf og var til viðbót­ar í ábyrgð fyr­ir önn­ur fyr­ir­tæki Magnús­ar.

Ófullnægjandi upplýsingar matsmanna

Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2012 var fallist á kröfu lífeyrissjóðsins um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að láta í té skriflegt og rökstutt álit á nokkrum atriðum er vörðuðu efnahag Glitnis á árunum 2007 og 2008. Matsmönnum er gert að leggja mat á uppbyggingu eigin fjár og eiginfjárhlutfalls Glitnis á þessum tíma, afskriftaþörf hans og hvert lausafé hans hefði verið að teknu tilliti til tiltekinna þátta og reglna um hvernig skuli telja þessa þætti fram í rekstri fjármálafyrirtækis.

Matsmenn töldu að þau gögn sem þeir öfluðu í því skyni að svara matsspurningum, sem lagðar hafa verið fyrir þá, væru ekki fullnægjandi til þess að þeir geti svarað þeim spurningum sem að þeim var beint. Glitnir hafi hafnað því að veita þeim aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og því var krafist úrskurðar um þessi atriði.

Þar sem Hæstiréttur hefur nú gert Glitni að afhenda umrædd gögn - einstaka kröfum var reyndar hafnað - fer væntanlega að glitta í að matsgerð verði tilbúin.

Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þórður
Lárus Welding.
Lárus Welding. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert