Hvað hefur gerst frá handtöku Thomasar

Thomas neitar því að hafa banað Birnu, en framburður hans …
Thomas neitar því að hafa banað Birnu, en framburður hans er í hróplegu ósamræmi við sönnunargögn. mbl.is/Ófeigur

Á morgun, þriðjudaginn 18. júlí, hefst í Héraðsdómi Reykjaness aðalmeðferð dómsmáls sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur Thomas Møller Olsen, en hann er ákærður fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana í janúar síðastliðnum. Birna fannst látin við Selvogsvita þann 22. janúar síðastliðinn, eftir að hafa verið saknað í átta sólarhringa, en Thomas hefur ávallt neitað því að hafa orðið henni að bana. Framburður hans hefur þó þótt í hróplegu ósamræmi við sönnungargögn í málinu.

Við upphaf aðalmeðferðar verða teknar skýrslur af sjö skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq. Enn vantar þó skýrslu þýska réttarmeinafræðingsins Urs Olivers Wiesbrock, sem falið var að svara sex spurningum í tengslum við málið. Gæti það tafið aðalmeðferð málsins. Skipverjarnir munu hins vegar ekki dvelja lengi á landinu og skipið ekki aftur væntanlegt fyrr en seint á þessu ári. Verða því teknar skýrslur af þeim þrátt fyrir að gögn vanti.

Með lífsmarki þegar hún fór í sjóinn

Thomas hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar síðastliðnum, en samkvæmt upplýsingum frá ákæruvaldinu, er ekki búist við að hann verði viðstaddur upphaf aðalmeðferðar á morgun.

Birnu var saknað í átta sólarhringa áður en hún fannst.
Birnu var saknað í átta sólarhringa áður en hún fannst. Aðsend mynd

Thomas er ákærður fyrir manndráp, með því að hafa að morgni laugardagsins 14 janúar, svipt Birnu lífi, að segir í ákærunni. Þar kemur fram að ákærði hafi veist að henni með ofbeldi í rauðri Kia Rio bifreið sem lagt var nálægt flotkví í Hafnarfjarðarhöfn, eða á öðrum óþekktum stað.

Hann „sló hana ítrekað í andlit og höfuð, tók hana kverkataki og herti kröftuglega að að hálsi hennar og í framhaldinu, á óþekktum stað, varpaði ákærði Birnu í sjó eða vatn, allt með þeim afleiðingum að Birna hlaut punktblæðingar í augnlokum, táru og glæru augnlokanna og innanvert höfuðleður, þrýstingsáverka á hálsi, þar á meðal brot á vinstra efra horn skjaldkirtilsbrjósts, nefbrot, marga höggáverka í andliti og á höfuð og drukknaði,“ að segir í ákærunni. Birna var því með lífsmarki þegar henni var varpað í sjó eða vatn.

Brotið er talið varða við 211. grein almennra hegningarlaga, en refsing við slíku broti er að lágmarki fimm ára fangelsisvist.

Eftir að lík Birnu fannst við Selvogsvita héldu björgunarsveitarmenn áfram leit á svæðinu í þeirri von um að finna eigur Birnu eða eitthvað annað sem gæti varpað skýrara ljósi á atburðarrásina. Meðal annars hvar henni hefði verið komið fyrir í sjó eða vatni. Sú leit bar hins vegar ekki árangur.

Handteknir um borð í Polar Nanoq

Thomas var handtekinn við annan mann um borð í Polar Nanoq þann 18. janúar síðastliðinn, í aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra, um það bil 90 sjómílur suðvestur af landinu. Sérsveitarmenn fóru um borð í skipið úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Lögregla tók jafnframt yfir stjórn skipsins og stýrði því til hafnar í Hafnarfirði. Ástæða handtökunnar var sú að lögregla taldi mennina tvo búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu, en skilríki hennar fundust um borð í skipinu.

Skipverjarnir voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald, en krafa lögreglunnar um fjögurra vikna gæsluvarðhald var ekki samþykkt. Að tveimur vikum loknum var öðrum skipverjanum sleppt úr haldi og var ekki krafist farbanns yfir honum. Hann hafði þó áfram réttarstöðu sakbornings.

Boðað var til blaðamannafundar þegar lík Birnu fannst.
Boðað var til blaðamannafundar þegar lík Birnu fannst. mbl.is/Eggert

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem stýrði rannsókn málsins, sagði málið á þeim tímapunkti upplýst með þeim hætti að ekki þyrfti að krefjast frekara gæsluvarðhalds yfir manninum. Thomas var hins vegar úrskurðaður í áframhaldandi varðhald í tvær vikur, sem var framlengt um aðrar tvær vikur vegna rannsóknarhagsmuna. Hann var samtals í einangrun á Litla-Hrauni í sex vikur en var svo fluttur í fangelsið á Hólmsheiði af öryggisástæðum og þótti þá ekki lengur þörf á að hann sætti einangrun. Gæsluvarðhaldi var hins vegar áframhaldið.

Var saknað í átta sólarhringa

Birna Brjánsdóttir hvarf aðfararnótt laugardagsins 14. janúar síðastliðins og sást henni síðast bregða fyrir í eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur. Á myndavélum sást einnig rauð Kia Rio bifreið sem í ljós kom að grænlensku skipverjarnir höfðu haft til umráða þessa nótt. Birnu hafði því verið saknað í átta daga þegar lík hennar fannst við Selvogsvita þann 22. janúar.

Leitin að Birnu var mjög umfangsmikil, en áður en hún …
Leitin að Birnu var mjög umfangsmikil, en áður en hún hófst þurfti að kortleggja ferðir hennar aðfararnótt laugardagsins 14. janúar. Notast var við gögn úr öryggismyndavélum og upplýsingar frá farsímafyrirtækjum. Mynd/mbl.is

Hundruð björgunarsveitarmanna höfðu þá leitað hennar dag og nótt og fínkembt stórt svæði á suðvesturhorni landsins, í um 80 kílómetra radíus frá Reykjavík. Almenningur lagði einnig sitt af mörkum við leitina og stóð í raun öll þjóðin á öndinni á meðan Birnu var saknað. Allir vonuðust eftir kraftaverki, að Birna myndi finnast á lífi. Þegar hún fannst hins vegar látin helltist áþreifanleg sorg yfir allt samfélagið.

Segist saklaus af ákærum og neitar bótakröfu

Ákæra var gefin út á hendur Thomasi þann 30. mars síðastliðinn og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann 10. apríl. Þar kom fram að Thomas segðist saklaus af því að hafa banað Birnu. Er hann einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en hann á að hafa reynt að smygla rúmlega 23 kílóum af kannabisefnum, sem hann hafði komið fyrir í klefa sínum í Polar Nanoq. Hann sagðist jafnramt saklaus af þeim ákærulið. Þá hafnaði hann bótakröfu foreldra Birnu upp á 10,5 milljónir fyrir hvort þeirra.

Leitað var á sjó og landi.
Leitað var á sjó og landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftir að ákæra var gefin út á hendur Thomasi var rannsókn á hinum skipverjanum hætt. Var hann ekki lengur grunaður um aðild að verknaðnum og laus allra mála. Ekki hafa enn fengist upplýsingar um það frá hérðassaksóknara hvort hann er í hópi þeirra sjö skipverja sem tekin verður skýrsla af við upphaf aðalmeðferðar á morgun.

Við þingfestinguna óskaði verjandi Thomas eftir tíma til að fara yfir gögn málsins og var þinghaldi því frestað til 25. apríl. En sak­sókn­ari máls­ins skilaði meðal ann­ars inn geðheil­brigðis­vott­orði og viðbót­ar­göngn­um vegna notk­un­ar síma sem er meðal gagna máls­ins.

Lík Birnu fannst við Selvogsvita þann 22. janúar síðastliðinn.
Lík Birnu fannst við Selvogsvita þann 22. janúar síðastliðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við fyrirtöku þann 25. Apríl óskaði verjandi ákærða eftir viðbótarfresti til að klára yfirferð gagna. Þá fór ákæruvaldið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald. Í úrskurðinum kom fram að mikið af blóði úr Birni  hefði fundist á, á úlpu Thomas og á öðrum föt­um hans. Þá fundust þekjufrum­ur úr Thomas og Birnu fund­ust á skóm henn­ar við höfn­ina í Hafnarfirði sem fundust þann 16. janúar. Lögreglan var fullviss um að þeim hefði verið komið þar fyrir í þeim tilgangi að villa um fyrir lögreglunni, en það voru sjálfboðaliðar sem tóku þátt í leitinni að Birnu sem fundu skóna.

Erfiðlega gekk að fá réttarmeinafræðing 

Þann 9. maí fór fram önnur fyrirtaka í málinu. Þar lagði ákæruvaldið fram viðbótargreinargerð vegna staðsetningu símanúmers Thomasasr og verjandi hans lagði fram tvær matsbeiðnir. Ann­ars veg­ar varðandi fimm spurn­ing­ar fyr­ir rétt­ar­meina­fræðing og hins veg­ar tvær spurn­ing­ar fyr­ir bæklun­ar­lækni.

Við fyrirtöku þann 16. maí lagði ákæruvaldið svo fram viðbótargreinargerð vegna notkunar á símum og af­rit af græn­lensku saka­vott­orði ákærða, sem átti eftir að þýða yfir á ís­lensku.

Þá var dóm­kvadd­ur bæklun­ar­lækn­ir, Ragn­ar Jóns­son, fenginn til að meta Thom­as og hvort hann hafi verið fær um að fremja verknaðinn sem honum er gefið að sök að hafa framið. Þá hafði enn ekki fengist réttarmeinafræðingur til að taka málið að sér. Bundnar voru vonir við að sænskur réttarmeinafræðingur kæmi til aðstoðar, en það gekk ekki eftir.

Yfir 800 björgunarsveitarmenn leituðu Birnu dag og nótt.
Yfir 800 björgunarsveitarmenn leituðu Birnu dag og nótt. mbl.is/Eggert

Viku síðar, eða þann 23. maí, hafði þýski rétt­ar­meina­fræðing­ur­inn Urs Oli­ver Wies­brock, fengist til að taka málið að sér. Gert var ráð fyrir því að hann yrði búinn að svara spurningum sem fyrir hann voru lagðar, fyrir 27. júní, en það gekk ekki eftir og enn er beðið eftir skýrslunni.

Svarar því lengi Birna var í sjónum

Við fyrirtöku í málinu þann 7. júní krafðist verjandi Thomasar þess að fá afhent farsímagögn fyrir tímabilið 14. janú­ar, klukk­an 06:00, til 15. janú­ar, klukk­an 06:00. Um er að ræða gögn úr farsíma­möstr­um sem staðsett eru við Suður­strand­ar­veg, m.a. við Strand­ar­kirkju.

Kia-Rio bifreiðin sem Thomas hafði til umráða sást á öryggismyndavélum, …
Kia-Rio bifreiðin sem Thomas hafði til umráða sást á öryggismyndavélum, bæði við Hafnarfjarðarhöfn og í miðbæ Reykjavíkur.

Kröf­unni var mót­mælt af hálfu ákæru­valds­ins, sem sagði hana ber­sýni­lega þarfa­lausa. Dóm­ari í mál­inu sagði að þar sem gögn­in væru varðveitt hjá fjar­skipta­fyr­ir­tækj­um myndi hann boða þau fyr­ir­tæki fyr­ir dóm þar sem kraf­an verði tek­in sér­stak­lega fyr­ir. Frestaði hann þing­haldi til fimmtu­dags­ins 15. júní, en frestaðist fyrirtakan til 16. júní. Hún var jafnframt sú síðasta fyrir aðalmeðferð.

Þá kom fram að meðal þeirra gagna sem lögð hefðu verið fram í málinu af hálfu ákæruvaldsins væri gæðamat tækni­deild­ar á fingra­för­um. Verj­andi ákærða lagði á sama tíma fram sam­an­tekt fjöl­miðlaum­fjöll­un­ar um málið og um tíu ljós­mynd­ir. Hann féll jafnframt frá kröfu um af­hend­ingu farsíma­gagna, þangað til frek­ari gagna hefði verið aflað. 

Við síðustu fyrirtöku var lögð fram mats­gerð Ragn­ars Jóns­son­ar bæklun­ar­lækn­is sem svara átti tveim­ur spurn­ing­um.

Sjötta spurn­ing­in var einnig lögð fyr­ir þýska rétt­ar­meina­fræðing­inn Urs Oli­ver Wies­brock, en til viðbótar við fyrri fimm spurningar var honum falið að meta hversu lengi lík­ami Birnu hafði verið í sjó þegar hann fannst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert