Mikil sóun að rífa hús

Fimm hæða stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu 12 var rifið fyrir fimm árum til að reisa mætti hótel á lóðinni.

Bankinn var síðan jarðsettur í Bolaöldum í hlíðum Vífilfells og víða í Reykjavík og Kópavogi. Steinsteypa og gler var grafið í Bolaöldu, steinsteypumulningur endurnýttur og jarðsettur í Reykjavík og Kópavogi, málmur sendur til meginlands Evrópu og endurunninn, timbur brennt á Grundartanga og málað timbur, einangrun og almennur úrgangur grafinn í Álfsnesi.

Arkitektinn Anna María Bogadóttir fylgdist með niðurrifinu, eins og hún rekur í bókinni Jarðsetning, og gerði einnig heimildarmynd um niðurrifið og innsetningar.

Erum steypuþjóð

„Mér finnst það náttúrlega rosalega mikil sóun að rífa hús og við erum komin á þann stað í samtímanum og við getum ekki leyft okkur að rífa hús. Framsæknasta svarið í arkitektúr í dag er að hætta að rífa. Þú getur komið með endalaust mikið af teikningum af nýjum húsum, en það framsæknasta og mikilvægasta er að hætta að rífa hús.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert