Þórdís fer fram gegn nöfnu sinni

Þórdís Sigurðardóttir.
Þórdís Sigurðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Sigurðardóttir framkvæmdastjóri sækist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram þann 4.-5. mars og verður kosið um fjögur efstu sæti framboðslista flokksins.

Þetta kemur fram í tilkynningu en nafna hennar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, núverandi oddviti Viðreisnar í borginni, sækist einnig eftir fyrsta sætinu.

Þórdís hefur víðtæka reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja, bæði sem stjórnarmaður, ráðgjafi og framkvæmdastjóri. Um árabil hefur hún starfað á sviði skólamála. Hún var lektor í stefnumótun og stjórnun í Háskólanum í Reykjavík, jafnframt gegndi hún forstöðu yfir MBA-náminu og sat í háskólaráði skólans. Þórdís var einnig framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar sem á og rekur 18 skóla á landinu, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þar segir enn fremur að í störfum sínum sem stjórnandi og ráðgjafi hafi Þórdís öðlast mikla reynslu af farsælum umbreytingarverkefnum. Dæmi má nefna að árið 2019 hlaut Hjallastefnan verðlaun fyrir „Byltingu í stjórnun“ frá Viðskiptaráði Íslands. Verkefnið leiddi Þórdís og miðaði það að valdeflingu starfsfólks sem leiddi til aukinna gæða í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

Sá árangur sem ég hef náð í fyrri störfum byggist á því að auka völd og áhrif starfsfólksins sem raunverulega vinnur verkefnin. Árangurinn af þessari nálgun er aukin starfsánægja, færri veikindadagar og betri rekstrarárangur. Ég vil að svipaðar leiðir séu notaðar í auknum mæli í rekstri og stjórn borgarinnar með því markmiði að bæta þjónustu og auka virðingu við alla borgarbúa,“ er haft eftir Þórdísi.

Hún segir að til að bæta velferð og þjónustu í borginni sé einnig mikilvægt að  bregðast við ákalli atvinnulífsins um að stytta boðleiðir og einfalda ferla með raunverulegum hætti. Starfsemi atvinnulífsins í borginni sé einn lykilþátta við að mynda sjálfbær og lífleg hverfi. Innviðir verði styðja við þá uppbyggingu.

„Ég hef einlægan áhuga á hugmyndum sem varða hagsmuni borgarbúa og vil að hlustað sé á raddir íbúa hverfa með markvissari hætti. Með því tel ég að hægt sé að finna fjölbreyttar lausnir og valkosti þegar kemur að mikilvægustu þáttum nærþjónustunnar og varða borgarbúa mestu máli,“ er haft eftir Þórdísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka