Sporðdrekinn: Það býr í þér óbeislaður kraftur

Elsku Sporðdrekinn minn,

þó þú eigir auðvelt með að greina aukaatriði frá aðalatriðum geturðu verið of stífur og leyft aukaatriðum verða aðalatriðin.

Það býr svo mikill og óbeislaður kraftur í þér sem þú getur nýtt þér bæði til góðs og ills, þú ert hið fullkomna yin & yang. Það býr í þér einbeitt persóna sem þolir ekkert nema sigur, en þegar þér finnst þú hafir ekki barist nógu vel hefurðu þá tilfinningu að stinga sjálfan þig á hol, þess vegna er enginn millivegur ríkjandi hjá þér.

Þú átt það náttúrulega til að láta ekki lífið vita af þér, en þá býrðu líka í þeim dimmu göngum og depurð. Þú hefur svo magnað afl og öll þau verkfæri sem þú þarft til að sjá alls ekkert svartnætti. Það býr í þér svo hugsandi og aflmikill karakter, nefnilega áhrifavaldur, og þegar þú nýtir þér það og ert upp á þitt besta, þá áttu sviðið. Ef þér finnst þessi tilfinning ekki umlykja þig er það einungis vegna þess að þú hefur beint sverðinu að þér. Ekki gefa þér það að þú þurfir að vera í sömu vinnu eða á sama stað ótrúlega lengi, þá færðu leið, því að vanafesta hentar þér ekki eins vel og þú heldur.

Þegar þú gírar þig upp og sendir dásamlegt daður til þess sem þú vilt vinna þér inn stig hjá og þó þú hafir einskæran brotavilja, þá gengur það upp. Það er mikilvægt fyrir þig að skoða að daður er ekkert tengt neinu af kynferðislegum toga, heldur segir það þér að þú hafir áhrif á bæði börn og fullorðna og allt sem lifir þegar þú einbeitir þér að þessu.

Það eru margar breytingar í kringum þig, þó það tengist þér ekki alveg persónulega. Og í þessum breytingum stækkar þú og verður eins sýnilegur og þú þarft til þess að gera tilveru þína skemmtilega. Ég dreg eina lokasetningu úr Abracadabra stokknum mínum og hún segir að hamingja er með sömu kennitölu og þú og þar af leiðandi ert þú hamingjan.

Knús & kossar,

Sigga Kling

Frægir Sporðdrekar:

Helga Braga Jónsdóttir, leikkona, 5. nóvember

Emmsjé Gauti, rappari, 17. nóvember

Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður, 21. nóvember

Karl Bretaprins, 14. nóvember

Hillary Clinton, stjórnmálamaður, 26. október

Leonardo DiCaprio, leikari, 11. nóvember

Króli, tónlistarmaður, 2. nóvember 

Bergur Ebbi, grínisti, 2. nóvember

mbl.is