Vogin: Þú færð stöðuhækkun í lífinu

Elsku Vogin mín,

þú varst búin að gera sérstakt plan fyrir líf þitt, en það gekk ekki upp því að uppsprettan og lífið er að finna akkúrat réttan farveg fyrir þig. Það er ekki alltaf rétti tíminn til að breyta þótt manni finnist það stundum. Svo margt sem þú hefur ákveðið að láta gerast hjá þér hefur nú þegar gerst, en annað mun svo takast í örlítið smærri skrefum, en á hárréttum tíma. Næstu tveir mánuðir færa þér þá stöðuhækkun í lífinu sem þú ert að leita og hefur óskað eftir.

Það eina sem gæti stoppað þig er ef þú ofkeyrir þig í verkefnum. En þannig ertu bara byggð upp og þú veist það best sjálf að í gegnum tíðina hefurðu gert hlutina af svo mikilli ástríðu að það hefur tekið úr þér hjartað. Sú tilfinning að gera aðeins of mikið er fram undan, svo þú þarft að vita með vissu að verkefnin þín gangi upp. En það er staðreynd að þegar hugur þinn er slakur ertu langbest, þótt mikið sé að gera.

Ástin leikur við þig og trygglyndi er lykillinn að henni, en þú átt ekki endilega að kjósa það sem er auðveldast í ástinni. Heldur skaltu sjálf taka og bera ábyrgð á og láta hana gerast.

Ég dreg fyrir þig tvö spil úr töfrabunkanum og fyrsta spilið segir að þú sért að láta gömul mál og gamlan missi hafa áhrif á nútíðina. En þú þarft að muna að fortíðin er ekki til, hún er búin og ef þú lætur hana hafa áhrif á andartakið sem þú lifir í núna þá hindrar hún þá framtíð sem þú vilt fá.

Skoðaðu að allt sem þú segir er orka, svo talaðu minna um gömul vandamál sem geta eitrað lífið þitt í dag. Spil númer tvö hefur töluna fimm sem táknar skemmtilegt fólk og ferðalög. Hún segir líka að þú sért að læra svo mikið og í raun og veru sért þú kennari. Þetta er vegna viskunnar sem þú hefur öðlast og aflað þér í gegnum árin og útkoman sem birtist þér fyrir næstu fjórar vikur, er einfaldlega að allt verði fullkomið.

Knús og kossar,

Sigga Kling

mbl.is