Siggi dúlla spenntur fyrir einum Guinness

Daníel Laxdal og félagar halda til Írlands.
Daníel Laxdal og félagar halda til Írlands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daníel Laxdal, varnarmaður Stjörnunnar, er orðinn ýmsu vanur í Evrópukeppnum eftir þátttöku Stjörnunnar síðustu ár, en næsti mótherji Garðbæinga er Shamrock Rovers frá Írlandi í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

„Það verður gaman að fara til Írlands. Siggi Dúlla [liðsstjóri] verður spenntur að fá sér einn Guinness,“ sagði Daníel léttur í samtali við mbl.is en hann vissi annars lítið um írska liðið.

„Satt að segja veit ég lítið um þetta lið, svo þjálfararnir þurfa að fara að vinna sína vinnu að finna styrkleika og veikleika þeirra. Eina sem ég veit er að Damien Duff er aðstoðarþjálfari, svo sem Chelsea-maður er það gaman,“ sagði Daníel, en Duff gerði garðinn frægan hjá Chelsea á árum áður og lauk svo ferlinum með liði Shamrock.

Daníel segir að það gefi liðinu mikið að taka þátt í Evrópukeppni eins og sannaðist fyrir nokkrum árum þegar Stjarnan komst sem lengst.

„Um leið og þetta tímabil byrjaði þá gefur það manni aukinn kraft að vita að það er Evrópukeppni í sumar. Þetta gefur því mikið upp á stemningu og annað slíkt,“ sagði Daníel Laxdal við mbl.is.

mbl.is