Heimi var ráðlagt að hætta

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson fagna í kvöld.
Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson fagna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, sagði á blaðamannafundi rétt í þessu að honum hefði verið ráðlagt í nokkrum samtölum að hætta sem landsliðsþjálfari eftir EM í Frakklandi. Árangurinn yrði ekki betri en sá sem þar náðist þegar Ísland komst á stórmót karla í fyrsta skipti og fór í 8-liða úrslit.

„Liðið hefur verið að bæta sig og átti inni að mér fannst í fyrra. Sumir sögðu mér að hætta eftir EM í Frakklandi og njóta augnabliksins. Hætta þegar góður árangur hafði náðst. En ég trúði því að við gætum gert betur. Við höfum bætt allt hjá sambandinu. Það var mikið rúm fyrir bætingu og það var ástæðan fyrir því að við trúðum þessu,“ sagði Heimir í upphafi fundarins. 

Heimir sagði mikilvægt fyrir íslenska liðið að halda í sín sérkenni. Okkar lið geti aldrei hermt eftir Spánverjum á fótboltavellinum. Okkar lið yrði þá bara verri útgáfa af spænska landsliðinu. 

Heimir sagði að lengi hafi verið vitað að þessi helgi yrði mikilvæg og hann bjóst við því að úrslitin í riðlinum myndu ráðast í lokaumferðinni. 

„Við vissum alltaf að þessi leikur yrði úrslitaleikur fyrir okkur. Við undirbjuggum þessa helgi vel. Ferðin til Tyrklands er líklega ein sú dýrasta í sögu KSÍ. Það var dýrt en ég held að það hafi borgað sig. Við þurftum að glíma við ýmsar hindranir, til dæmis þegar farangur okkar skilaði sér ekki fyrr en daginn fyrir leik. Ég segi að ekkert lið í heiminum hefði getað tekist eins vel á við slíka hindrun eins og við gerðum en þess má geta að starfsfólkið okkar svaf ekki í ferðinni.“

Heimir tók fram að um væri að ræða mikla samvinnu hjá öllu þjálfarateyminu.

„Þetta er svo mikil hópvinna. Það er enginn einn sem á orðið heldur er þetta mikil samvinna. Þannig held ég að við getum unnið stórar þjóðir. Með því að vinna hlutina saman. Þar má nefna fjölmiðla. Ég efast um að nokkur landsliðsþjálfari eigi jafn góð og hreinskilnisleg samskipti við fjölmiðla eins og við. Ég efast einnig um að nokkurs staðar í heiminum séu jafn góðir stuðningsmenn,“ sagði Heimir og bætti við. „Við vitum alveg hvað Lars (Lagerbäck) gaf okkur. Hann kom með ákveðna hugsun inn í þetta hjá okkur. Hann kom hingað með 30-40 ára reynslu. Auðvitað á hann stóran þátt í þessu. Á endanum verðum við allir dæmdir af sögunni. Þannig er það í lífinu.“

Heimir var sérstaklega spurður út í Gylfa Þór Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson sem hafa dregið vagninn á miðjunni í landsliðinu síðustu árin.

„Við erum með leikmenn sem eru afburða á sínu sviði. Ef við tökum Gylfa sem dæmi þá er hann einn af okkar allra þekktustu leikmönnum. Skorar mikið og leggur mikið upp. Er oft í sviðsljósinu. Slíkir leikmenn eru stundum lúxus leikmenn. En Gylfi leggur sig líklegast mest fram af öllum í landsliðinu. Hann endurspeglar allt sem við viljum að leikmenn okkar hafi. Öll lið í heiminum vilja hafa leikmann sem er tilbúinn að fórna öllu til að liðið geti unnið. Allir myndu því vilja hafa mann eins og Aron Einar. Hann er tilbúinn að setja andlitið í takkana ef það verður til þess að samherji skori eða komist í fyrirsagnirnar. Við eigum fullt af slíkum mönnum sem leggja mikið á sig þótt þeir fái ekki athyglina. Menn eins og Jón Daði og Birkir Bjarna eru vinnudýr. Það sem gerir Aron Einar að einstakri persónu er hversu mikið hann er tilbúinn að leggja á sig fyrir aðra.“

Heimir kallaði ítrekað eftir því í undankeppninni að Íslendingar færu ekki fram úr sér þrátt fyrir velgengnina. Talaði þar til fjölmiðla og hins almenna stuðningsmanns. 

„Ég held að úrslitin sýni að þetta virkaði. Við töluðum ekki niður til andstæðinganna. Ef maður gerir þá er maður farinn að ofmeta sjálfan sig. Við erum ánægðir með hvernig við nálguðumst þessa hluti. Við unnum mikla vinnu við að leikgreina andstæðingana með mönnum eins og Arnari Bill og Frey Alexanderssyni. Hinn almenni knattspyrnuáhugamaður spilar kannski fótbolta í Play Station. Ef þú tapar fyrir Kósóvó í raunveruleikanum þá er ekki hægt að restarta og spila leikinn aftur.“

Gott fordæmi fyrir smáþjóðir

Albert Bunjaki, þjálfari Kósóvó, óskaði Íslendingum til hamingju með árangurinn á blaðamannafundi og sagði hann geta verið öðrum smáþjóðum hvatning: „Ég vil óska Íslendingum til hamingju. Þetta sýnir að árangurinn á EM var ekki tilviljun. Þessi árangur Íslands er gott fordæmi fyrir smáþjóðir eins og okkur. Með góðu skipulagi er hægt að ná árangri.“

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is