Allir leikir núna eru úrslitaleikir

Haraldur Björnsson.
Haraldur Björnsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, stóð vaktina vel þegar Garðbæingar unnu 2:1-sigur á Breiðabliki í toppslag Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum komst Stjarnan upp fyrir Blika og á jafnframt leik til góða.

„Við vissum það, sérstaklega eftir að hafa tapað tveimur stigum í lokin gegn Grindavík, að þessi leikur yrði alveg gríðarlega mikilvægur til þess að halda í vonina. Að missa Blikana einhverjum fimm stigum fram fyrir okkur hefði verið hörmung, svo við urðum bara að vinna þennan leik,“ sagði Haraldur við mbl.is.

Hann var ánægður með frammistöðu liðsins en var ekki ánægður með markið sem Blikar skoruðu. Daninn Thomas Mikkelsen virtist þá ýta duglega frá sér í teignum.

„Þó að þeir hafi fengið eitt kolólöglegt mark sem hleypti þeim inn í leikinn þá vorum við bara með góð tök á leiknum. Þeir fengu smá blóð á tennurnar og sóttu smá á okkur, en vörnin stóð sína plikt sem var mjög fínt,“ sagði Haraldur. En var farið að fara um hann undir lokin þegar Blikar pressuðu stíft?

„Nei, maður er svo rólegur. Fyrir nokkrum árum hefði farið um mann, en þetta kemur bara með reynslunni. Þetta er bara gaman,“ sagði Haraldur léttur.

Valur og Stjarnan eru nú bæði með 35 stig og mætast innbyrðis á miðvikudag. Sá leikur gæti ráðið miklu í toppbaráttunni.

„Það eru allir leikir úrslitaleikir núna. Það skiptir ekki máli ef við vinnum þennan leik og töpum svo rest; það þarf að vinna alla leikina. Hver einn og einasti er úrslitaleikur, sama hver mótherjinn er,“ sagði Haraldur Björnsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert