„Þetta er ansi magnað“

Cloé Lacasse með viðurkenningu sína.
Cloé Lacasse með viðurkenningu sína. Ljósmynd/Víkurfréttir.

„Þetta er ansi magnað, ekki síst í ljósi þess að ég var meidd hluta af leiktíðinni. Ég er stolt af þessari viðurkenningu,“ segir Cloé Lacasse, fyrsta knattspyrnukonan til að enda í efsta sæti M-einkunnagjafar Morgunblaðsins.

Fulltrúar Morgunblaðsins voru á vellinum á öllum leikjum Pepsi-deildarinnar í sumar og þar heillaði hin kanadíska Cloé, sem vonast til að fá íslenskan ríkisborgararétt í vetur, mest allra. Þó svo að hún sé farin að geta tjáð sig lítillega í ræðu og riti á íslensku liggur hún ekki yfir íþróttasíðum Morgunblaðsins ennþá, en hafði þó heyrt af einkunnagjöfinni í gegnum liðsfélaga sína. Cloé hlaut samtals 18 M í 17 leikjum.

„Þegar ég var búin að vinna úr meiðslunum sem ég glímdi við smullu hlutirnir vel saman. Á seinni hluta leiktíðar leið mér vel og tókst að láta að mér kveða þannig að það hefði þýðingu fyrir liðið. Við náðum að rétta gengi okkar við eftir ákveðnar breytingar sem ráðist var í og úrslitin voru eftir því.

Við höfðum verið að hleypa inn mörkum allt of auðveldlega og það er hægt að rifja upp nokkur furðuleg atvik í því sambandi, en það var gott að sjá þjálfarateymið bregðast við þessu,“ segir Cloé. Hún skoraði 10 mörk í sumar og hefur alls skorað 43 mörk í 67 leikjum í Pepsi-deildinni síðan hún kom fyrst til ÍBV árið 2015, þá 22 ára gömul.

Eftir að hafa orðið bikarmeistari í fyrra náði ÍBV sér ekki eins vel á strik í sumar. Liðið missti svo landsliðskonuna Sigríði Láru Garðarsdóttur í ágúst, en hún fór til Lilleström og varð norskur meistari, en rétti þó heldur úr kútnum á seinni hluta leiktíðar. Liðið endaði í 5. sæti Pepsi-deildarinnar.

Sjá allt viðtalið við Cloé í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem er að finna heildarniðurstöðuna í M-gjöf Morgunblaðsins 2018 og val á liði ársins, úrvalsliði erlendra leikmanna, úrvalsliði ungra leikmanna, úrvalsliði eldri leikmanna og fimm bestu leikmenn í hverju liði Pepsi-deildar kvenna 2018 í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert