Allir heilir í fullkomnum heimi

Erik Hamrén valdi í dag 25 manna leikmannahóp fyrir leikina ...
Erik Hamrén valdi í dag 25 manna leikmannahóp fyrir leikina Belgíu og Katar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í fullkomnum heimi væru allir heilir og klárir í slaginn en þannig er það víst ekki alltaf í þessum blessaða fótbolta,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi KSÍ í Laugardalnum í hádeginu í dag.

„Ég vorkenni mest leikmönnunum sjálfum því allir knattspyrnumenn vilja spila en þetta fylgir því að vera atvinnumaður í knattspyrnu. Núna vonar maður bara að allir haldist heilir um helgina og komist vel frá sínum verkefnum með félagsliðum sínum. Ég mun fylgjast vel með leikjum helgarinnar og það verður ekki laust við að maður muni finna fyrir smá stressi því ég vona innilega að allir í hópnum haldist heilir.“

Arnór Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson og Guðmundur Þórarinsson koma allir inn í hópinn í fjarveru lykilmanna sem eru meiddir og er Hamrén spenntur að vinna með þeim.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson snýr aftur í landsliðið eftir langvarandi ...
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson snýr aftur í landsliðið eftir langvarandi meiðsli. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Spenntur að hitta Aron

„Ég er ánægður með þá leikmenn sem við völdum í hópinn og vonandi standast þeir væntingar mínar. Ísland á marga öfluga knattspyrnumenn og það var því ekki erfitt að velja hópinn í þetta skiptið. Ég hlakka til að hitta strákana og fá tækifæri til þess að vinna með þeim á nýjan leik. Það verður ánægjulegt að hitta loksins Aron Einar Gunnarsson, fyrirliða liðsins. Ég hef séð hann spila og ég veit hvað hann getur og hversu mikilvægur hann er fyrir landsliðið. Reynsla hans sem fyrirliði skiptir okkur gríðarlega miklu máli og við höfum saknað hans.“

Kolbeinn Sigþórsson er á sínum stað í íslenska hópnum en staða hans hjá Nantes hefur lítið breyst þar sem leikmaðurinn fær ekkert að spila með aðalliðinu og viðurkennir Hamrén að það sé áhyggjuefni.

„Ástand Kolbeins hjá Nantes hefur ekki breyst neitt. Hann hefur æft með varaliði Nantes og hann er ekki að spila neina leiki. Kolbeinn er því í sömu stöðu og hann var, fyrst þegar að ég hitti hann, en ég hef séð hann spila og ég veit hvað hann getur og hversu mikilvægur hann getur orðið fyrir okkur. Ég vona að hann byrji að spila á nýjan leik, hvort sem það er hjá Nantes eða hjá nýju félagi. Ég get ekki valið hann í hópinn í framtíðinni ef hann er ekki að spila, þótt það hafi gengið í þetta skiptið.“

Hamrén segir að markmiðið fyrir leikina tvo sé sigur og hann mun því stilla upp sínu sterkasta liði í báðum leikjunum gegn Belgíu og Katar.

Arnór Sigurðsson er nýliði í íslenska landsliðshópnum en hann hefur ...
Arnór Sigurðsson er nýliði í íslenska landsliðshópnum en hann hefur farið vel af stað með CSKA Moskvu í Rússlandi á þessari leiktíð. mbl.is/Hari

Byrjunarliðið óákveðið

„Kannski fá ungu strákarnir tækfæri gegn Belgíu, kannski gegn Katar. Ég á eftir að velja byrjunarliðið og það er nægur tími til stefnu. Leikurinn gegn Belgíu er í forgangi hjá okkur og svo sjáum við hverjir eru klárir í slaginn gegn Katar. Þetta eru tveir leikir sem við viljum vinna og ætlum okkur sigur. Það er langt síðan liðið vann leik og við viljum enda þetta ár á sigri,“ sagði Erik Hamrén í samtali við mbl.is.

mbl.is