Verkefnin verða ekki mikið ólíkari

Hannes Þór Halldórsson hélt marki sínu hreinu gegn Andorra í ...
Hannes Þór Halldórsson hélt marki sínu hreinu gegn Andorra í kvöld. AFP

„Frammistaðan var góð. Við héldum áfram að reyna, allan tímann, gegn liði sem gerði allt til þess að gera okkur erfitt fyrir,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur liðsins gegn Andorra í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM á Estadi Nacional vellinum í Andorra la Vella í kvöld.

„Þeir notuðu öll trixin í bókinni á erfiðum velli. Það er erfitt að ná upp góðu spili á þessum velli og það hafa mörg góð lið misstígið sig hérna í gegnum tíðina. Við vinnum góðan sigur með tveggja marka mun og sigurinn var satt besta að segja aldrei í hættu.“

Ísland tefldi fram reyndasta landsliði sínu frá upphafi í kvöld en allir leikmenn liðsins, að undaskyldum Arnóri Sigurðssyni, voru með 50 landsleiki á bakinu eða meira.

„Við stilltum upp hörku byrjunarliði í dag og þetta var kjarni af leikmönnum sem hafa spilað lengi saman að undanskyldum Arnóri sem kom mjög sterkur inn. Við erum með hörkulið og reynslan er klárlega einn af okkar styrkleikum og við nýttum okkur hana svo sannarlega í dag. Þjálfarateymið undirbjó okkur mjög vel fyrir leikinn í kvöld og við vissum nákvæmlega út í hvað við vorum að fara. Þótt þeir hafi náð að fara í taugarnar á okkur náðum við að halda haus allan tímann og gera það vel.“

Ísland mætir Frökkum næstkomandi mánudag á Stade de France í París og viðurkennir Hannes að verkefnin verði ekki mikið ólíkari.

„Þau verða ekki mikið ólíkari verkefnin, það verður bara að segjast. Við leikmenn höfum ekkert leitt hugann að þessum Frakka leik fyrr en núna. Þjálfarateymið er búið að vinna ákveðna undirbúningsvinnu varðandi Frakka leikinn en við settum alla okkar orku í að vinna þennan leik í kvöld. Það hefði verið slys ef það hefði ekki tekist og núna snýst fókusinn okkar yfir á Frakkana,“ sagði Hannes Þór Halldórsson í samtali við mbl.is.

mbl.is