Eitthvað sem enginn sá fyrir

Erik Hamrén var sáttur og svekktur eftir 2:1-sigur Íslands gegn …
Erik Hamrén var sáttur og svekktur eftir 2:1-sigur Íslands gegn Moldóvu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætluðum okkur þrjú stig og við fengum þrjú stig,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Hauk Harðarson hjá RÚV, eftir 2:1-sigur liðsins gegn Moldóvu í undankeppni EM á Zimbru-vellinum í Chisinau í Moldóvu í kvöld.

„Það var margt jákvætt við okkar leik í kvöld. Við sköpuðum helling af marktækifærum og spiluðum boltanum mjög vel á milli manna. Við skorum tvö mjög góð mörk eftir laglegt samspil og það var fullt af hlutum sem við gerðum vel á meðan að það voru aðrir hlutir sem við hefðum getað gert talsvert betur. Aðalmarkmið kvöldsins var hins vegar að vinna leikinn og það tókst. Við endum riðlakeppnina með 19 stig sem hefði að mínu mati átt að duga til þess að komast áfram í lokakeppnina.“

Ísland lýkur keppni með 19 stig, fjórum stigum minna en Tyrkir, sem fengu fjögur stig úr leikjum sínum gegn Frökkum en íslenska liðið fékk fjögur stig úr sínum leikjum gegn Tyrkjum.

„Ég get ekki sagt að ég sé sáttur með þessa undankeppni því við ætluðum okkur í lokakeppnina. Þetta var ásættanlegt en það sem varð okkur að falli varð sú staðreynd að Tyrkir tóku fjögur stig af heimsmeisturum Frakka og það var eitthvað sem enginn átti von á. Ef við horfum á hina riðlana þá eru ekki mörg lið sem enda í þriðja sæti með 19 stig og það er vissulega svekkjandi,“ sagði Hamrén í samtali við RÚV.

mbl.is