Kórinn ekki lengur vígi hjá HK-ingum

Frá leiknum í Kórnum í kvöld.
Frá leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður

Víkingur vann sinn annan leik í sumar í Pepsi Max-deild karla í fótbolta er liðið heimsótti HK í Kórinn og vann 2:0-sigur. Víkingar hafa oft spilað betur, en þeir gerðu vel í að nýta færin gegn klaufskum HK-ingum. 

HK-ingar voru sterkari framan af og komust nokkrum sinnum í hættulegar stöður. Í flestum tilvikum var Valgeir Valgeirsson að skapa hættur og átti hann m.a. hörkuskot sem Þórður Ingason gerði vel í að verja snemma leiks.

Það kom því gegn gangi leiksins að Víkingur komst yfir á 26. mínútu. Gestirnir fengu þá aukaspyrnu á hægri kantinum og Viktor Örlygur Andrason spyrnti boltanum inn í teiginn, Sigurður Hrannar Björnsson í marki HK misreiknaði flug boltans illa og skoppaði hann í grasinu og endaði í fjærhorninu.

Valgeir Valgeirsson var bestur hjá HK.
Valgeir Valgeirsson var bestur hjá HK. mbl.is/Sigurður Unnar

Eftir markið slokknaði á HK-ingum og á sama tíma tókst Víkingum ekki að skapa sér annað færi í hálfleiknum og var staðan í leikhléi því 1:0, Víkingi í vil. Lítið var um færi framan af í seinni hálfleik og lítil breyting á leiknum á milli hálfleika. 

Rétt eins og í fyrri hálfleik tókst Víkingum samt sem áður að skora í seinni hálfleiknum. Á 65. mínútu fékk Óttar Magnús Karlsson boltann í teignum, snéri af sér varnarmann og skilaði boltanum glæsilega í stöngina og inn. 

Kórinn var mikið vígi fyrir HK síðasta sumar en liðið er búið að tapa öllum þremur leikjum sínum á heimavelli til þessa í sumar. Víkingur er í sjötta sæti með átta stig og HK í níunda sæti með fimm stig. 

Kári gerir gæfumuninn

Víkingur fékk stóran skell gegn Val í síðasta leik, 1:5, enda lék liðið án þriggja bestu miðvarða sinna. Kári Árnason og mætti aftur í vörnina í kvöld og það var allt annað að sjá liðið. Kári tapaði ekki einvígi og þá er hann afar góður í að byrja sóknir með því að taka réttar ákvarðanir þegar hann spilar boltanum úr vörninni. 

Frá leiknum í Kórnum í kvöld.
Frá leiknum í Kórnum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar

Þá lék Viktor Örlygur Andrason mjög vel. Hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild og fór síðan í miðvörðinn eftir að Halldór Smári Sigurðsson meiddist og leysti það hlutverk vel. Víkingur hefur oft spilað betur, en það þarf ekki alltaf að spila kampavínsfótbolta til að ná í þrjú stig og það sýndu gestirnir úr Fossvogi í kvöld. Þeir taka frammistöðu eins og í kvöld í hverjum leik ef þrjú stig fylgja með. Með hertoga eins og Kára í vörninni og framherja eins og Óttar Magnús Karlsson er hægt að gera góða hluti, þótt frammistaðan sé ekki alltaf upp á 10. 

HK hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í Kórnum til þessa og það er áhyggjuefni. Kórinn þarf að vera vígi fyrir HK ef liðið ætlar sér að gera einhverja hluti í sumar. Liðið var nokkuð mikið með boltann en var aldrei sérstakalega líklegt til að brjóta niður vörn Víkinga. 

Valgeir Valgeirsson átti sína spretti að vanda og var hann sá eini sem skapaði eitthvað af viti fyrir HK. Valgeir er aðeins sautján ára gamall en það er erfitt að finna leikmann í deildinni sem er mikilvægari fyrir sitt lið en Valgeir er fyrir HK. 

Þá gaf Sigurður Hrannar Björnsson Víkingi mark á silfurfati í fyrri hálfleik eftir að HK hafði verið sterkari aðilinn framan af. HK-ingar sakna Arnars Freyr Ólafssonar aðalmarkmanns. 

HK 0:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Atli með stórhættulega sendingu fyrir markið en Óttar Magnús rétt missir af boltanum á fjær.
mbl.is