Algjör óþarfi að fá markið á sig

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það var gott að fá stig. Miðað við hvernig leikurinn var í heild sinni held ég að stig sé fínt,“ segir Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 1:1 jafntefli við Þór/KA í Garðabæ í kvöld þar sem Akureyringar jöfnuðu metin á lokasekúndum uppbótartíma.

„Auðvitað er svekkjandi að fá á sig mark í uppbótartíma, það var algjör óþarfi að fá markið á sig, en þær lágu á okkur mikið síðustu 12, 15 mínúturnar svo 1:1 er held ég bara sanngjörn niðurstaða. Við verðum bara að bíta í það, við erum ekki alveg með heppnina með okkur þessa dagana svo við bara höldum áfram.“

Leikurinn var nokkuð tíðindalítill framan af og segir Kristján leikjapásuna vegna kórónuveirunnar líklega hafa haft mest að segja.

Stressaðar

„Ætli það sé ekki bara pásan, liðin duttu út í covid-pásunni og það vantaði kannski aðeins að fá riþmann í gang. Það var líka eitthvað stress í þessu, allavega okkar megin, Þórsararnir náðu að stressa okkur í pressunni og við náðum ekki að spila út nógu oft í gegnum fyrstu pressuna og upp völlinn, það olli okkur vandamálum, en okkur tókst að laga það í hálfleik.“

Það dró loks til tíðinda um miðjan síðari hálfleik þegar tveir varnarmenn Þórs/KA hlupu saman í sókn Stjörnunnar og lágu eftir. Það var Aníta Ýr Þorvaldsdóttir sem nýtti sér plássið sem þær skildu eftir og skoraði stöngin inn. „Það er bara um að gera að nýta sér það og sem betur fer tóks Anítu að setja hann í markið. Svona gerist þetta, ég er heldur ekkert sáttur við hvernig okkar leikmenn hreyfðu sig í markinu þarna undir lokin,“ segir Kjartan og á við mark Maríu Cat­har­inu Ólafs­dótt­ur Gros á lokasekúndum leiksins.

Ekki alvarleg meiðsli

Stjarnan missti tvo leikmenn af velli snemma í leiknum vegna meiðsla, þær Hugrúnu Elvarsdóttur á 15. mínútu og Jönu Sól Valdimarsdóttur á þeirri 32. Kristján er bjartsýnn á að þær verði klárar í næsta leik gegn FH að viku liðinni. „Ég held að þær verði alveg í góðu lagi, þetta er ekki það mikið held ég. Það er vika í næsta leik, þær hljóta að redda því.

Stjarnan er í 7. sæti deildarinnar með níu stig eftir leikinn í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert