Auðvitað erum við óánægðir með þetta

Kári Árnason skallar frá marki Víkings, í baráttu við Björn …
Kári Árnason skallar frá marki Víkings, í baráttu við Björn Daníel Sverrisson, í leiknum í kvöld. Árni Sæberg

„Þetta er bara saga tímabilsins hjá okkur,“ sagði Kári Árnason landsliðsmiðvörður í knattspyrnu við mbl.is eftir ósigur Víkinga gegn FH, 1:0, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í Kaplakrika í dag.

FH vann leik liðanna 1:0 með marki Hjartar Loga Valgarðssonar en Víkingar sóttu mun meira í leiknum í heildina.

„Auðvitað erum við dæmdir af því að við erum ekki með nógu mörg stig en við höldum áfram að keyra á liðin og pressa þau stíft. Nú höfum við spilað á móti tveimur efstu liðum deildarinnar á nokkrum dögum, pressum og erum inni í teig hjá þeim meirihluta leikjanna en erum í erfiðleikum með að skora," sagði Kári.

Sigurmarkið var vafasamt

Hann var ekki sáttur við sigurmark FH-inga.

„Þeir skoruðu vafasamt mark, ég hélt að menn hefðu verið sofandi fyrir seinni fyrirgjöfinni sem kom inn í teiginn en mér er sagt að það hafi verið augljóst brot áður. Þetta er bara svekkjandi. Við vorum miklu betri aðilinn gegn Val í fyrri hálfleik en döluðum í þeim síðari. Jafntefli hefði verið sanngjarnt þar en við hefðum átt skilið að vinna þennan leik í kvöld.“

Víkingar lentu í vandræðum um miðbik seinni hálfleiks þegar FH-ingar settu mikla pressu á þá og voru nærri því að ná tveggja marka forystu.

„Lið eins og FH mun alltaf eiga sína kafla í svona leik. Ég hef ítrekað við strákana í sumar að fótboltinn er þannig að sama við hvern þú spilar, hitt liðið á alltaf kafla í leikjum, þetta  snýst um að reyna að stytta þá kafla eins og mögulegt er, en það kom vissulega korter í seinni hálfleik þar sem við vorum í veseni og þeir pressuðu okkur framarlega. Þeir unnu boltana sem við spörkuðum frá og settu pressuna aftur. Það er bara eðlilegur hluti af leiknum. 

Guðmann Þórisson og Óttar Magnús Karlsson í leiknum í Kaplakrika.
Guðmann Þórisson og Óttar Magnús Karlsson í leiknum í Kaplakrika. Árni Sæberg

En heilt yfir áttum við þennan leik með húð og hári, spiluðum fantabolta og náðum að læsa þá vel niðri. Við getum borið höfuðið hátt eftir þessa frammistöðu en engu að síður verðum við að fara að skoða þetta markaleysi hjá okkur. Við erum með gæði en þetta er spurning um að skapa þessi færi, taka kannski aðeins færri snertingar á boltann í kringum vítateiginn og reyna að finna einhverjar opnanir," Kári.

Rosalega svekkjandi tímabil

Hann sagðist ekki reyna að dylja það að Víkingar séu óhressir með sína stöðu í deildinni en þeir hafa aðeins unnið þrjá af þrettán leikjum sínum og hefur gengið illa að skora mörk.

„Auðvitað erum við óánægðir með þetta. Það fer enginn í felur með það því við erum með nógu gott lið til að vera í baráttu, en það hefur ekkert fallið með okkur. Það er vissulega klisja, og stigataflan talar sínu máli. Þett er bara rosalega svekkjandi tímabil hingað til en við verðum að halda áfram að  trúa á þetta. Við sýndum það svo sannarlega í dag en það vantar eitthvað smáræði til að setja boltann í markið. Okkur tekst ekki einu sinni að skora úr föstum leikatriðum. Þetta er basl, en engu að síður stjórnum við leikjum og þetta mun koma hjá okkur, ég hef engar áhyggjur af öðru," 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert