Valskonur luku mótinu með stæl

Valskonur fagna í leikslok.
Valskonur fagna í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir ágæta tilburði voru Valskonur alltof stór biti fyrir Selfoss þegar liðin mættust í síðustu umferð Íslandsmóts kvenna í fótbolta að Hlíðarenda í kvöld.  Nýbakaðir Íslandsmeistarar Vals voru smá tíma í gang en þegar það gerðist sýndi liðið frábæran fótbolta og lauk mótinu með stæl.

Selfyssingar voru búnir að eiga tvö góð skot að marki Vals áður en Valskonur loks byggðu upp góða sókn, þar sem Ásdís Karen Halldórsdóttir  var með boltann út við hliðarlínu á 11. mínútu.  Hvort sem hún ætlaði að gefa fyrir markið eða skjóta, skipti það engu því boltinn slapp yfir markvörð Selfyssinga og Valur komin í 1:0 forystu.   Gestirnir frá Selfossi voru snöggir að ná sér, náðu þó ekki að sækja stíft en sókn Vals var kominn í gang og á 24. mínútu sneri Cyera Hintsen af sér varnarmann Selfyssinga í miðjum vítateig, skaut hnitmiðað út við stöng, boltinn fór í stöngina og þvert yfir markið í hina stöngina en lá þá inni.   Selfoss átti nokkra spretti en sókn Vals  þyngdist stöðugt og eftir ótrúlega mikinn darraðadans í markteig Selfoss eftir hornspyrnu var Ídu Marín Hermannsdóttur nóg boðið og einfaldlega þrumaði upp í þaknetið.   Fyrsta markið dugði ekki til að ná algerum tökum á leiknum, annað markið var mikið högg en með því náðu Valskonur undirtökunum og þriðja markið var í takt við leikinn.   Svo kom fjórða markið þegar reynsluboltinn Fanndís Friðriksdóttir elti uppi sendingu í gegnum vörn Selfoss og skaut síðan yfirvegað yfir markvörðinn.  Faglegt mark.   Á síðustu mínútu fyrir hálfleiks kom skoraði Cyera aftur, nú eftir góða fyrirgjöf Ásdísar Karenar eftir mikinn sprett eftir frábæra sókn.

Síðari hálfleikur var líflegur en svo til eingöngu úti á vellinum því það var ekki mikið um færi, sem skiptust næstum jafnt á liðin en það vantar ekkert uppá að bæði vildu og ætluðu sér að skora.  Miðað við þessa forystu var nokkuð gott að ná þó að spila svona grimmt.

Valur 5:0 Selfoss opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert