„Þá spila leikmenn ekki fyrir Íslands hönd“

Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide getur ekki valið Albert Guðmundsson í næsta …
Landsliðsþjálfarinn Åge Hareide getur ekki valið Albert Guðmundsson í næsta landsliðshóp sinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson mun ekki leika með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu á næstunni eftir að hann var kærður fyrir kynferðisbrot á dögunum.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, staðfesti í samtali við 433.is að sambandið hefði fengið ábendingu um að búið væri að kæra landsliðsmann fyrir kynferðisbrot en 433.is nafngreindi Albert svo í frétt sinni um málið.

„Við fengum ábendingar um tiltekið mál í morgun og við bregðumst strax við því,“ sagði Vanda í samtali við mbl.is í dag.

Fylgja reglum KSÍ

„Ég get staðfest það að við fáum þessar upplýsingar inn á borð til okkar. Stjórn KSÍ setti reglu á síðasta ári um að leikmenn sem sakaðir eru um brot af einhverju tagi stígi til hliðar á meðan rannsókn stendur yfir.

Þegar málið er komið inn á borð til lögreglu þá spila leikmenn ekki fyrir Íslands hönd og þannig eru reglurnar. Við eigum von á nýrri aðgerðaáætlun frá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs strax í haust.

Þegar sú aðgerðaáætlun er komin út munum við að sjálfsögðu hlíta henni en þangað til fylgjum við reglum KSÍ sem kveða á um að leikmenn spili ekki með landsliðinu á meðan mál þeirra er til rannsóknar eins og ég sagði áðan,“ bætti Vanda við í samtali við mbl.is.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert