Breiðablik hafði betur í toppslagnum

Barbára Sól Gísladóttir í þann mund að skora sigurmarkið í …
Barbára Sól Gísladóttir í þann mund að skora sigurmarkið í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Topplið Bestu deildar kvenna í knattspyrnu, Breiðablik og Valur, mættust í leik sem fór fram í rigningu og 13 m/s á Kópavogsvelli í kvöld. Blikar höfðu betur, 2:1 og héldu toppsætinu.

 Þetta var fyrsta tap Vals í deildinni en þær eru í öðru sæti með 15 stig. Breiðablik er í fyrsta sæti með fullt hús stiga,18 stig eftir sex leiki.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir um tíu mínútur tók Valur völdin, var meira með boltann og skapaði sér hættulegri færi.

Eftir 20 mínútur fékk Nadía Atladóttir gott færi en hún fékk boltann inni í teig Blika og skaut í nærhornið en Telma Ívarsdóttir varði, Nadía var í byrjunarliði Vals í staðin fyrir Amöndu Andradóttir en hún er að glíma við meiðsli. Telma var svo að koma til baka úr meiðslum sem eru góðar fréttir fyrir Breiðablik. 

Katie Cousin fékk svo annað hættulega færi Vals í leiknum en það kom á 25. mínútu. Boltinn var skallaður út á vítateigslínuna af varnarmanni Breiðabliks en þar var Katie mætt, hún tók boltann á lofti í fyrstu snertingu og setti hann niðri á markið en hann fór í stöngina.

Blikar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað fimm mínútum síðar, á vítateigslínunni sem Agla María Albertsdóttir tók. Í stað þess að reyna skot þá hikaði hún og sendi á Andreu Rut Bjarnardóttir en varnarmenn Vals voru fljótir að átta sig og lokuðu á hana.

Á 35. mínútu skoraði svo  Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir mark Vals eftir undirbúning frá Önnu Rakel Pétursdóttir. Guðrún tók boltann með sér inn á teiginn, klobbaði Ástu Eir Árnadóttir og setti boltann á lofti í fjærhornið og staðan í hálfleik 1:0 fyrir gestunum. 

Breiðablik kom mun betur inn í seinni og settu mikla pressu á Valsara.

Þær skoruðu svo jöfnunarmarkið á 64. mínútu sem Ólöf Sigríður Kristjánsdóttir lagði það upp en hún kom inn á af bekknum á 60. mínútu.

Ólöf fékk sendingu í gegn og keyrði inn á teig Vals undir pressu frá varnarmanni. Hún beið eftir samherja og sá Andreu Rut Bjarnadóttir á ferðinni sem fékk boltann, fór framhjá varnarmanni og hamraði boltanum í samskeytin, staðan 1:1.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði svo Barbára Sól Gísladóttir sigurmark Breiðabliks. Blikar fengu hornspyrnu, tóku hana stutt og Agla María sendi boltann á fjær þar sem Barbára var ein og stangaði hann í netið, staðan þá 2:1 og þannig lauk leiknum.

Breiðablik 2:1 Valur opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert