Sannkallaður stórleikur í Kópavogi

Ísabella Sara Tryggvadóttir og Agla María Albertsdóttir í leik liðanna …
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Agla María Albertsdóttir í leik liðanna í fyrrasumar. Eggert Jóhannesson

Breiðablik og Valur eigast við í sannkölluðum stórleik í 6. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli klukkan 18. 

Liðin hafa bæði unnið fimm fyrstu leiki sína og eru með jafnmörg stig í fyrsta og öðru sæti deildarinnar. Breiðablik er ofar vegna markatölu. 

Liðin tvö hafa barist um Íslandsbikarinn undanfarin ár en sjaldan hefur einn leikur í upphafi tímabils verið svona spennandi. 

Vinnur Stjarnan annan leikinn í röð?

Stjarnan fær Fylki í heimsókn í Garðabæinn klukkan 18. Með sigri ynni Stjarnan sinn annan leik í röð en liðið hefur valdið vonbrigðum á tímabilinu og er í sjötta sæti með sex stig. 

Fylkir hefur farið ágætlega af stað en liðið er í áttunda sæti með fimm stig, fjórum á undan Þrótti R. í níunda sæti. 

Halda Akureyringar pressunni?

Þór/KA fær þá Tindastól í heimsókn í slag um Norðurlandið klukkan 20.15. Akureyringar eru í þriðja sæti með 12 stig en Tindastóll er í fimmta sæti með sex. 

Mbl.is færir ykkur það helsta úr öllum þremur leikjum í beinni textalýsingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert